Segja Skúla senda starfsfólki kaldar kveðjur

04.06.2019 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Hugmynd um nýtt lággjaldaflugfélag sem skapar sér samkeppnisforskot með því að troða á launafólki er vond hugmynd. Íslensk verkalýðshreyfing mun aldrei samþykkja slíkt,“ segir í yfirlýsingu á vef ASÍ. Þar segir að Skúli Mogensen hafi sent launþegum kaldar kveðjur í fréttum RÚV í gær.

Skúli sagði að ef það ætti að ráðast aftur í stofnun flugfélags þá þyrfti að vera öðruvisi samsetning á kjarasamningum. Það þyrfti að vera opnari tækifæri að nota erlenda áhöfn heldur en hefur verið. Hörð kjarabarátta og hvernig samningarnir hafi verið settir upp hafi verið til trafala. Það gangi ekki upp að það sé hætta á verkföllum þegar verið sé að byggja upp flugfélag af þessu tagi.

„Þetta eru afar kaldar kveðjur þar sem WOW naut velvildar starfsmanna sinna og í raun samfélagsins alls. Það voru ekki mannsæmandi laun sem settu fyrirtækið á hausinn! Að koma núna og kenna starfsmönnum og launakjörum þeirra um gjaldþrotið er allt annað en stórmannlegt og kaldar kveðjur til starfsfólksins sem stóð með félaginu þar til yfir lauk,“ segir í yfirlýsingu ASÍ.

ASÍ segir að á íslenskum vinnumarkaði gildi lög, reglur og kjarasamningar sem tryggi velferð launafólks. Þetta viti flestir þeir sem hafi staðið í atvinnurekstri. „Undirstaða velferðar okkar sem þjóðar er þetta skipulag og kröftug barátta gegn undirboðum á vinnumarkaði. Við köllum þetta norrænt velferðarsamfélag,“ segir í yfirlýsingunni.

Fyrirtæki sem séu tilbúin til að starfa á þessum forsendum eru velkomin – önnur ekki. „Þeir sem ætla að vera með í leiknum verða að spila eftir reglunum. Hinum sem ætla að svindla er mætt af fullri hörku,“ segir í yfirlýsingunni.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi