
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá borgarfulltrúum flokksins.
Ákvörðun Framsóknar og flugvallarvina um að skipa Gústaf Adolf Níelsson sem varamann flokksins í mannréttindaráði hefur vakið mikla athygli, ekki síst þar sem hann er flokksbundinn Sjálfstæðismaður og hefur lýst yfir andstöðu við hjónabönd og ættleiðingar samkynhneigðra.
Tillagan var samþykkt með tíu atkvæðum á fundi borgarstjórnar í gær - fimm borgarfulltrúar sátu hjá, Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Heiða Björg Hilmisdóttir, Dagur B. Eggertsson og Halldór Auðar Svansson.
Gústaf segir í samtali við fréttastofu að hann sé ekki vonsvikin með þessa ákvörðun - hann hafi aldrei sóst eftir sæti í mannréttindaráði, heldur hafi oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík óskað eftir því. „Ætli það sé ekki búið að hræða líftóruna úr oddvitanum [Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir]?“
Forystumenn innan Framsóknarflokksins gagnrýndu þessa ákvörðun í morgun, meðal annars ráðherrarnir Eygló Harðardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson sem og fyrrverandi varaformaður flokksins, Birkir Jón Jónsson.
Samtökin ´78 sögðu á Facebook-síðu sinni í morgun að þau hefðu miklar áhyggur af þeirri vegferð sem Framsóknarflokkurinn hafi lagt upp í með skipan Gústafs. Þess væri nú krafist að forystu flokksins gerði hreint fyrir sínum dyrum.