Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Segja Sigmund vega að sjálfsstjórnarrétti

07.05.2015 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnun leggjast alfarið gegn frumvarpi forsætisráðherra um verndarsvæði í byggð. Reykjavíkurborg segir að um grófa aðför að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga sé að ræða og SÍS telur um mikið valdaframsal til forsætisráðherra að ræða.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi, um verndarsvæði í byggð. Markmið frumvarpsins er að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi. Verði frumvarpið að lögum verða sveitarfélög skylduð til að meta reglulega hvort innan þeirra sé byggð sem ástæða sé til að gera að verndarsvæði. Þá verður sú breyting á, að ákvörðun um að gera byggð að verndarsvæði verður hjá forsætisráðherra, en ekki hjá sveitarfélögum.

Átta umsagnir og erindi hafa borist Alþingi. Þar á meðal frá Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnun.

Reykjavíkurborg gerir verulegar athugasemdir við frumvarpið og leggst alfarið gegn því að það verði að lögum. Ekki verði annað ráðið af frumvarpinu og skýringum með því en að um grófa aðför að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga sé að ræða. Jafnframt liggi fyrir að allar þær heimildir sem frumvarpinu er ætlað að koma á til að tryggja vernd sögulegra byggða séu þegar til staðar í gildandi löggjöf. Af því leiði að tilgangurinn með lagasetningunni geti einungis verið sá einn að færa umræddar heimildir til ákvörðunartöku um verndarsvæði í byggð frá sveitarstjórnum yfir til forsætisráðherra.

Ótakmarkað ráðherraræði

Samband íslenskra sveitarfélaga leggst einnig eindregið gegn því að frumvarpið verði að lögum. Helstu athugasemdir sambandsins snúa að því að verulega hafi skort á að hugað hafi verið að grundvallarreglum um sjálfstjórn sveitarfélaga við frumvarpsgerðina. Þá geri frumvarpið ráð fyrir ótakmörkuðu ráðherraræði varðandi tillögur um verndarsvæði, sem þó sé órökstutt. Jafnframt sé gert ráð fyrir miklu valdframsali til forsætisráðherra um atriði, sem telja verður mikilvæga þætti varðandi málefnið. Loks sé með frumvarpinu gengið gegn yfirlýstri stefnu núverandi ríkisstjórnar um einföldun regluverks.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir meðal annars að ekki sé tilefni til sérstakrar lagasetningar um þetta efni, þótt ástæða geti verið til að skerpa á tilteknum ákvæðum gildandi laga. Í frumvarpinu sé lagt til að skipulagsvinna sveitarfélaga og mat á varðveislugildi byggðar verði aðgreind í tvö aðskilin verkefni. Skipulagsstofnun telur þessa nálgun ekki farsæla. Þegar unnið sé að skipulagi á þegar byggðum svæðum verði illa skilið á milli verkþátta sem felast annarsvegar í greiningu á þeirri byggð sem fyrir er og verndargildi hennar og hinsvegar í mótun þeirra skipulagsskilmála sem settir eru í skipulagi svæðisins varðandi viðhald og varðveislu þeirrar byggðar og byggingarheimildirtil frekari uppbyggingar.

 

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV