Segja opnað á eldi við ósa laxveiðiáa

12.01.2020 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Formaður Landssambands veiðifélaga segir fyrirætlan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á fiskeldisreglugerð auka hættu á að lús berist frá eldi í villta stofna, lúsin sé eitt það hættulegasta fyrir stofnana.

Samkvæmt nýrri reglugerð um fiskeldi sem ráðherra hefur birt til umsagnar er lagt til að bann við sjókvíaeldi í minna en fimm kílómetra fjarlægð frá laxveiðiám þar sem hundrað laxar veiðast að meðaltali, verði afnumið. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Ragnar Jóhannsson sviðssstjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun sögðu í fréttum RÚV í gær að með þessu væri ekki verið að slaka á reglum.

„Það er bara rangt. Þarna er í rauninni verið að opna á það að menn hafi eldi bara við ósa laxveiðiáa,“ segir Jón Helgi Björnsson formaður Landssambands veiðifélaga.

Sambandið sendi frá sér ályktun í morgun þar sem þessum áformum er harðlega mótmælt. Augljóst sé að með þessari breytingu tryggi ráðherra að ekkert fái stöðvað áform um laxeldi á gildandi friðunarsvæði Langadalsár og Hvannadalsár í Ísafjarðardjúpi og opni á eldi í næsta nágrenni áa í Eyjafirði, svo sem Fnjóskár, þar sem fjarlægðarmörk skipi miklu máli. Landssambandið undrast ummæli Ragnars um að áhættumatið taki hættunni á lús og sjúkdómum.

„Lús er í rauninni kannski sá þáttur sem er hvað hættulegastur fyrir stofnana og hefur veruleg áhrif á til dæmis lífslíkur sjógönguseiða þegar þau fara til hafs, þannig að við lítum á þessa breytingu sem mjög alvarlega.“

Jón Helgi segir að landssambandið muni mótmæla fyrirhuguðum breytingum á öllum stigum málsins og það að koma í veg fyrir þessar breytingar sé lífsspursmál fyrir þær ár sem í hlut eiga.

„Ef maður horfir á þetta þá er líka af ráðherrans hálfu verið í raunninni að ógilda úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 2017 þar sem starfsleyfi í nágrenni ánna í Ísafjarðardjúpi var fellt niður,“ segir Jón Helgi Björnsson formaður Landssambands veiðifélaga.