Segja Metoo-bylgjuna nú skekja hjálparsamtök

Mynd: EPA-EFE / EPA
Það er ólíðandi að ekki sé leitað annarra lausna, að velferð kvenna sé fórnað fyrir hagsmuni heildarinnar. Þetta segir framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Dæmi eru um að starfsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna neiti að afhenda sýrlenskum konum hjálpargögn og krefjist kynferðislegra greiða. Síðastliðnar vikur hefur hulunni verið svipt af ósæmilegri hegðun hjálparstarfsmanna á hamfara- og stríðssvæðum. Ofbeldi og misbeitingu þar sem síst skyldi. Þau skoða nú sinn gang.

Nýttu sér neyð heimamanna

Í byrjun febrúar greindi breska blaðið The Times frá því að háttsettir fulltrúar Oxfam-hjálparsamtakanna hefðu keypt vændi og brotið kynferðislega á ungum stúlkum þegar þeir voru við hjálparstörf á Haítí árið 2011.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Oxfam International
Jarðskjálftinn sem reið yfir Haítí í janúar 2010 olli miklu manntjóni og gríðarlegri eyðileggingu.

Oxfam-hneykslið beindi sjónum að öðrum hjálparsamtökum og mörg þeirra hafa ákveðið að gera hreint fyrir sínum dyrum, gera grein fyrir þeim málum sem upp hafa komið og fjölda þeirra sem sagt hefur verið upp störfum síðastliðin ár fyrir að beita skjólstæðinga kynferðislegu ofbeldi. Rauði krossinn og Læknar án landamæra eru þeirra á meðal.  Þessi hjálparsamtök reiða sig á fjárframlög frá ríkjum og almenningi. Ímyndin skiptir öllu og það hefur því verið ákveðinn hvati til upplýsa ekki um kynferðisbrot eða ósæmilega hegðun starfsmanna. Það kann nú að vera að breytast með opnari umræðu.

„Viðbrögðin hafa verið þau að núna á föstudag kom yfirlýsing frá Alþjóðaráði Rauða krossins um að síðan 2015 hafi 21 starfsmaður verið látinn fara vegna kaupa á vændi eða kynferðislegrar áreitni. Í raun var bara sagt að það sé ekki búið að taka alveg nógu vel á þessum málum í gegnum árin og að tíðindin undanfarið og metoo byltingin hafi vakið fólk til umhugsunar.“ 

Segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Brynhildur.

Hún segir að nýverið hafi verið stofnað heimsráð sem tekur við ábendingum sem tekur við ábendingum innan alþjóðahreyfingarinnar. „Það er verið að reyna að búa til fleiri tól til að hafa einhvern sem hefur yfirsýn yfir það hvað er að gerast hjá hreyfingunni, hvernig er tekið á því og því fylgt eftir.“ 

Erfiðar aðstæður geti ýtt undir ósæmilega hegðun

En hvers vegna kemur þetta upp? Hvers vegna misbeita hjálparstarfsmenn valdi sínu? Er það eitthvað við aðstæðurnar sem gerir þetta að verkum? 

„Ég er ekkert endilega viss um að það sé eitthvað við aðstæðurnar. Þetta er búið að vera gríðarlega mikið vandamál alls staðar í heiminum, í öllum brönsum alls staðar og hjálparsamtök augljóslega ekki undanskilin. Það eru 17.000 starfsmenn hjá alþjóða Rauða krossinum þannig að þetta eru margir starfsmenn. Það má samt alveg segja að þetta eru mjög oft mjög erfiðar aðstæður og fólk getur kannski gert eitthvað sem það á ekki að gera í slíkum aðstæðum, mjög mikil streita og slíkt en það er engin afsökun fyrir neinu, getur ekki afsakað neitt. Oft er fólk að koma að hjálpa, það er í ákveðinni yfirburðastöðu gagnvart þeim sem það er að hjálpa og þá misnotar það þá stöðu.“

En hefur Rauði krossinn verið meðvitaður um þetta? 

„Já, árið 2006 voru siðareglur Rauða krossins til dæmis uppfærðar og tekið fastar á ýmsu varðandi kynferðislega áreitni. Þá var gert algjörlega ljóst að starfsmönnum var bannað að kaupa kynlífsþjónustu, sama þó hún væri leyfð í viðkomandi landi, það var bara ekki talið samræmast grunngildum Rauða krossins. Þetta er eitthvað sem fólk er búið að vera meðvitað um en eins og við sjáum bara í samfélaginu öllu þá hefur fólk kannski ekki verið nógu meðvitað. Það þarf að gera mun betur og viðbrögðin sem hafa komið frá alþjóða Rauða krossinum finnst mér sýna að þau eru að hugsa um þetta og ætla að gera betur, ég er því jákvæð gagnvart framhaldinu.“ 

Landsdeildir jafna valdajafnvægið

Lands- og svæðisdeildir Rauða krossins og Rauða hálfmánans starfa um allan heim og það veitir Rauða krossinum ákveðna sérstöðu. „Rauði krossinn er uppbyggður þannig að það eru landsfélög í 190 löndum og þar undir eru deildir. Svo eru Alþjóðaráðið, ICRC, og Alþjóðasambandið og þau koma aldrei á svæðið óumbeðin, það er alltaf í samstarfi við það landsfélag sem er í viðkomandi landi þannig að sýrlenski Rauði hálfmáninn leiðir starfið í Sýrlandi en Alþjóðaráðið er þar líka og það jafnar svolítið valdastrúktúrinn. Það er ekki þannig að Alþjóðaráðið komi bara og taki yfir. Þetta getur verið öðruvísi hjá öðrum hjálparsamtökum.“ 

epa06503618 An injured girl receives a treatment at the Red Crescent center after bombing in Douma, eastern Ghouta, Syria, 07 February 2018. More than 12 people were killed today after bombings carried out by forces loyal to Syrian goverment in Douma and
Myndin var tekin í austur Ghouta í byrjun febrúar. Mynd: EPA
Rauði hálfmáninn í Sýrlandi.

Leifar af hitabeltishugsýki?

Afua Hirsch, pistlahöfundur breska blaðsins Guardian, segir að enn liti nýlendutímarnir og hugmyndir um yfirborði hvítra viðhorf hjálparstarfsmanna til ríkja á borð við Haítí. Þeir líti svo á að þau séu einhvers konar siðferðislegt tómarúm þar sem þeir geti leyft sér að kaupa vændi, svo dæmi séu nefnd. Fólk hafi samúð með þeim því þeir þurfi að vinna við svo erfiðar aðstæður, þeir séu firrtir ábyrgð. Hún minnist þess að í byrjun 20. aldarinnar hafi læknir bandaríska hersins greint hermenn á Filippseyjum með nýjan sjúkdóm, hitabeltishugsýki. Þeir voru fjarri siðmenningunni, gátu ekki fengið sér te,  gátu ekki farið á böll, það var allur þessi raki og hiti. Þess vegna hafi þeir farið að leitast eftir kynferðislegu samneyti við heimamenn. Oxfam-hneykslið og allt sem nú sé að koma upp á yfirborðið litast að mati Hirsch af nýlenduviðhorfum. Þá efast hún um að uppljóstranirnar um framferði starfsmanna Oxfam hafi misboðið siðferðiskennd fólks í Bretlandi eins mikið og það vildi vera láta. Þetta snúist allt um peninga. Bretar séu reiðir yfir því að Oxfam hafi fengið framlög úr ríkissjóði og hagað sér svona, það sé aðalmálið, en ekki velferð fórnarlambanna. 

Sameinuðu þjóðirnar sagðar hafa leyft ofbeldi að viðgangast

Nú eru það Sameinuðu þjóðirnar og sú neyðaraðstoð sem þær veita í Sýrlandi sem eru í brennidepli. Í dag greindi breska ríkisútvarpið frá því að starfsmenn á vegum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra hjálparstofnana, oft þriðju aðilar sem samið er við um að koma hjálpargögnum til nauðstaddra, hefðu misnotað sýrlenskar konur kynferðislega í skiptum fyrir matvæli og fleiri greiða. Upp komst um ofbeldisverkin fyrir þremur árum þegar sýrlenskar konur sem leitað höfðu skjóls í flóttamannabúðum í Jórdaníu greindu starfsmönnum þar frá ástandinu. Þrátt fyrir viðvaranirnar var ekki brugðist við og ný skýrsla sýnir að ofbeldisverkunum hefur verið haldið áfram í suðurhluta Sýrlands. Danielle Spencer, hjálparstarfsmaður, sem vann í flóttamannabúðunum árið 2015 segirþetta hafa verið konur á öllum aldri, sumar hafi verið örvinglaðar og grátið stanslaust, ofbeldið hafi haft djúpstæð áhrif á þær. Hjálparstarfsmenn greindu BBC frá því að ofbeldið væri svo algengt að konur veigruðu sér við því að fara á birgðastöðvar, þar sem nauðþurftum er dreift, af ótta við að verða stimplaðar fyrir að selja sig í staðinn fyrir aðstoðina. Spencer segir forsvarsmenn hjálparsamtaka á svæðinu hafa vitað af vandanum frá upphafi stríðsins, hún sjálf hafi fyrst heyrt af honum árið 2015.

„Hversu margar konur og stúlkur hafa þurft að þjást á þessu tímabili vegna þess að hjálparsamtök létu sig þessi mál engu varða?“

 Spyr hún.

Reiða sig á þriðju aðila

Spencer segir þetta fá að viðgangast vegna þess að eina leiðin til að koma nauðþurftum til fólks á hættulegum svæðum í Sýrlandi sé að semja við þriðju aðila, starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna sé annað hvort bannað að fara þangað sjálfir eða Sameinuðu þjóðirnar vilji ekki ógna lífi þeirra og limum. Afstaða þeirra hafi því verið sú að það sé réttlætanleg fórn að einstaka konur og stúlkur þurfi að þola kynferðislegt ofbeldi ef hægt er að koma nauðþurftum til stórra hópa.  

„Sameinuðu þjóðirnar starfa þannig, alla jafna á átakasvæðum eða þar sem neyð ríkir, að öll aðstoð fer í gegnum þriðja aðila eða nánast öll aðstoð. Matvælaaðstoðin, WFP, sér um að koma gögnum á svæðið með bílalestum, þyrlum eða flugvélum. Í Sýrlandi eru það bílalestir. Þá eru það yfirleitt aðilar á þessum svæðum, sem eru þá ekki starfsmenn Sameinuðu þjóðanna, sem sjá um að færa varninginn í vöruhús, á þann stað þar sem á að dreifa þeim og sjá svo um dreifingu.“

Segir Vera Knútsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Vera.

Þetta hafi líklega verið starfsmenn sveitarfélaga en þó ekki hægt að útiloka að starfsmenn Sameinuðu þjóðanna hafi komið að þessu.  

Dreifing hjálpargagna á að vera í samræmi við forgangslista Sameinuðu þjóðanna yfir það hverjir þurfa mest á aðstoðinni að halda en Vera segir að ekki sé alltaf farið eftir þeim.  Vera segir það hafa verið sláandi að lesa um það í skýrslu Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna að nokkuð sé um að starfsmennirnir deili hjálpargögnum út til þeirra sem standa þeim næst, fjölskyldu og vina. Stundum fái þeir sem mest þurfi á að halda ekki neitt. 

„Líklega vissu Sameinuðu þjóðirnar af þessu“

En hvað finnst Veru um yfirlýsingar Danielle Spencer, um að Sameinuðu þjóðirnar hafi vitað af vandanum og tekið meðvitaða ákvörðun um að fórna velferð ákveðinna kvenna fyrir hagsmuni heildarinnar? Eiga þær rétt á sér?  

„Ég get ekki fullyrt um að þetta hafi verið vitað en mér þykir það mjög líklegt því í langan tíma hefur verið rætt við konur um kynferðislegt ofbeldi og sem betur fer er verið að eiga þetta samtal og kanna aðstæður kvenna og ræða við þær um hvernig má bæta úr. Mér finnst ekki ólíklegt að Sameinuðu þjóðirnar hafi vitað af þessu og það er auðvitað ólíðandi að það þurfi endalaust að vera að taka ákvarðanir um svona á kostnað kvenna. Að sama skapi er hægt að koma með þessi rök á móti, á að fórna hagsmunum heildarinnar fyrir velferð og heilsu kvenna? Þetta eru kannski spor sem maður getur ekki sett sig í sjálfur. Mér finnst ólíðandi að þetta hafi verið látið viðgangast og ekki reynt að finna lausnir eða sporna við þessu á nokkurn hátt. Á sumum stöðum hafa að vísu verið settar upp móttökustöðvar þar sem eingöngu er útdeilt hjálpargögnum til kvenna eingöngu en gallinn er sá að þær þurfa oft að fara í gegnum öryggisleit og checkpoints milli svæða og þar geta þær orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Þær tala líka um að þær verði fyrir kynferðislegri áreitni þegar þær ganga úti á götu.“ 

Í skýrslunni sem Vera vísar til og Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, tók saman í fyrra kom fram að konur sem ekki njóti verndar karlmanna; svo sem ekkjur, fráskildar konur og konur sem hafi hrakist að heiman vegna stríðsástandsins séu í mestri hættu.

Sameinuðu þjóðirnar brynverji starfsmenn

Mynd með færslu
Kveikt var í nokkrum rútum í morgun, sem flytja áttu fólk frá austurhluta Aleppo og nágrenni Mynd: AP
Sameinuðu þjóðirnar vilja ekki leggja líf starfsmanna í hættu.

Vera segir erfitt að hafa fyrirkomulagið við dreifingu hjálpargagna öðruvísi en það er. Engin hjálpargögn fari eitt eða neitt án þess að stjórn Assads samþykki það. Allar sendingar séu skráðar sérstaklega og rati nær eingöngu inn á svæði sem eru undir stjórn stjórnarhersins. Það hafi örugglega verið reynt að fara í kringum þetta fyrirkomulag en það sé einfaldlega ekki hægt, þá séu sendingarnar einfaldlega stöðvaðar og engin hjálpargögn berast. 

Sameinuðu þjóðirnar eru með skrifstofur á vissum stöðum í Sýrlandi en margir sýrlenskir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa verið handteknir, samtökin geti ekki tryggt öryggi þeirra. Þegar kemur að alþjóðlegum starfsmönnum eru gerðar miklar öryggiskröfur, þeir ferðast ekki um nema í brynvörðum bílum með hjálma og í skotheldu vesti. Vera segir ekki mögulegt að tryggja öryggi alþjóðlegra starfsmanna við dreifingu hjálpargagna í Sýrlandi, þess vegna geti Sameinuðu þjóðirnar ekki sinnt þessu sjálfar.

„Það má alveg gagnrýna Sameinuðu þjóðirnar fyrir það að brynverja sig svona, geta ekki verið í nálægð og náð að tengjast fólki almennilega en þetta er líka spurning um hvað Sameinuðu þjóðirnar eru tilbúnar að taka á sig mikið mannfall af sínu starfsfólki.“

Óljóst hvort Oxfam lifa af

Vera vonar að umræðan nú eigi eftir að leiða til breytinga. „Ég held það hafi bara viðgengist of lengi, almennt, hvort sem það er hjá hjálparsamtökum eða hér á Íslandi eða annars staðar í heiminum að það þyki bara sjálfsagður hlutur að brotið sé á konum og þær verði fyrir kynferðislegri áreitni og áreiti. Það sem er að koma upp núna, með Oxfam og annað. Þetta er náttúrulega bara afleiðing af Metoo byltingunni og þetta er bara mjög jákvæð þróun að nú sé virkileg reiði í samfélaginu og um heim allan útaf svona fregnum. Ég veit ekki hvort Oxfam sem samtök hreinlega lifa þetta af. Það verður mjög erfitt fyrir Sameinuðu þjóðirnar að vinda ofan af þessu og ég vona að þær verði leiðandi í því að leiðrétta þetta, bæta fyrir og koma með góða starfshætti og gagnsæi svo uppljóstrarar geti ljóstrað upp um erfið mál, það fari í farveg og þeir séu verndaðir.“

Toppurinn á ísjaka

Svo virðist sem Oxfam-skandallinn, sem blaðamenn London Times sviptu hulunni af í byrjun mánaðarins, hafi verið toppurinn á stórum ísjaka. Eftir að upp komst að starfsmenn Oxfam keyptu vændi á Haítí og misnotuðu barnungar stúlkur greindu frönsku hjálparsamtökin Læknar án landamæra, frá því að þeim hefðu í fyrra borist 40 kvartanir sem vörðuðu áreitni eða ofbeldi og að 19 starfsmönnum hafi í kjölfarið verið sagt upp störfum. Í síðustu viku greindu alþjóðanefnd Rauða krossins frá því að 21 starfsmaður hefði hætt störfum hjá samtökunum, síðastliðin þrjú ár, fyrir að kaupa vændi á vettvangi. Plan International, bresk samtök sem snúa að barnahjálp, viðurkenndu að síðastliðið ár hefðu komið upp sex tilvik þar sem starfsmenn eða sjálfboðaliðar á vegum samtakanna brutu kynferðislega gegn börnum. Þá sagði fyrrum framkvæmdastjóri Barnaheilla upp störfum hjá Unicef á fimmtudag eftir að breska ríkisútvarpið greindi frá því að þrjár kvartanir höfðu borist vegna hans frá starfsólki Barnaheilla. Á föstudag undirrituðu forsvarsmenn 22 hjálparsamtaka yfirlýsingu þar sem þeir báðust afsökunar á því að hafa brugðist og hétu því að standa sig betur í því að vernda þá, sem þau gefa sig út fyrir að hjálpa, fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þá sögðust þau ætla að ráðast í aðgerðir og verja meira fé til öryggisráðstafana. „Við líðum ekki misbeitingu valds,“ segir í bréfinu, „og okkur ber skylda til þess að tryggja að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að uppræta ósæmilega hegðun.“ Samtökin sögðu þau mál sem komið hefðu fram í dagsljósið hafa valdið þeim vonbrigðum og ollið geðshræringu og sögðu ljóst að þörf væri á grundvallarbreytingum. „Við höfum lengi lagt mikið upp úr því að vernda þá sem við eigum að hjálpa og öll samtökin eru með áætlanir og verklag sem á að koma í veg fyrir ofbeldi og ósæmilega hegðun en við þurfum að gera enn betur til að vernda skjólstæðinga okkar.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi