Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segja laun sauðfjárbænda lækka um 56%

16.08.2017 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson R - Sauðfé Sauðfé
Allt stefnir í að laun sauðfjárbænda verði 56% lægri á þessu ári en því síðasta og að nánast öll sauðfjárbú verði rekin með tapi. Þetta kemur fram í bréfi sem Oddný Steina Valsdóttir formaður Landssamtaka sauðfjárbænda hefur ritað alþingismönnum, og er þar vísað í útreikninga sem Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins hefur unnið fyrir samtökin.

Fulltrúar sauðfjárbænda funduðu með atvinnuveganefnd Alþingis í gær um stöðu sauðfjárræktar í kjölfar þess að sláturleyfishafar ákváðu að lækka afurðaverð um 35% á komandi sláturtíð.

Í bréfinu kemur fram að samkvæmt úttektinni þýði lækkunin að framlegð af meðalkind lækki um 4.130 kr. frá því sem var í fyrra, sem þýði um 1.859 milljóna króna tap fyrir íslenska sauðfjárbændur í heild. Afkoma greinarinnar í heild fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta verði neikvæð um 1.463 milljónir kr. á þessu ári, en var jákvæð um 531 milljón í fyrra. Það þýðir að afkoman versnar um tæpa tvo milljarða.

Sumir fá engin laun

Í bréfinu kemur einnig fram að afurðaverðslækkunin sé hrein og klár launalækkum þar sem búið sé að leggja í nánast allan kostnað við lambakjötsframleiðslu haustsins. Neikvæðri afkomu verði ekki mætt með öðrum hætti en að lækka launaliðinn um 56%. Raunveruleg launalækkun til sauðfjárbænda verði þó meiri því að þá sé eftir að greiða vexti, verðbætur, afskriftir og skatta. Stórir hópar fái engin laun fyrir vinnuframlag sitt til sauðfjárræktar árið 2017 ef fer sem horfir og afurðaverð lækkar um 35% í haust.

Í bréfinu er bent á að bændur hafi verið hvattir til að framleiða kjöt til útflutnings og greinin verið markaðsvædd markvisst.  Sala á innanlandsmarkaði hafi verið með ágætum en salan erlendis hafi ekki gengið sem skyldi. Útlit sé fyrir að birgðir við upphaf sláturtíðar verði 700-1000 tonnum meiri en æskilegt væri, meðal annars vegna viðskiptadeilu við Rússa og að Noregsmarkaður hafi lokast.

Í lok bréfsins segir: „Ástæður þessarar miklu yfirvofandi lækkunar á afurðaverði til sauðfjárbænda tengjast þannig ekki með beinum hætti nýgerðum búvörusamningum og helgast að mestu af einstaklega óhagstæðum ytri aðstæðum sem bændur ráða ekki við. Þessi forsendubrestur mun koma harðast niður á þeim sveitum þar sem sauðfjárrækt er hryggjastykkið í atvinnulífi og byggðafestu. Afleiðingarnar gætu orðið fjöldagjaldþrot til sveita með tilheyrandi byggðaröskun. Þessi staða er grafalvarleg eins og bændur hafa ítrekað bent á. Margra mánaða viðræður við stjórnvöld hafa hins vegar litlu skilað. Landssamtök sauðfjárbænda telja því einsýnt að bændur og Alþingi taki höndum saman og bregðist við þessum bráðavanda án tafar.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV