Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Segja Hönnu Birnu forherðast

21.11.2014 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er til marks um forherðingu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að hún krefjist þess að nú sé mál til að linni í lekamálinu og ali um leið á tortryggni gagnvart þeim sem hafa sýnt henni nauðsynlegt aðhald. Þetta segir þingflokkur Pírata í yfirlýsingu vegna afsagnar innanríkisráðherra.

Píratar segja að Hanna Birna hafi enn „hvorki sýnt iðrun né viðurkenningu á framferði sínu gagnvart Alþingi, lögreglu og síðast en ekki síst fórnarlömbum lekans sjálfs“. Píratar segja að það sé fjarri lagi að málum linni nú þar sem eftirmálar þess séu rétt að koma fram í dagsljósið. Þeir vísa til skýrslu umboðsmanns Alþingis sem sé að vænta í næstu viku þar sem fjallað sé um möguleg afbrot Hönnu Birnu í starfi. Í yfirlýsingunni segir að þá þurfi fráfarandi ráðherra að sitja fyrir svörum hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Að auki hafi Píratar boðað vantraust þegar skýrsla umboðsmanns Alþingis lægi fyrir. Nú sé ljóst að ekkert verði af þeirri tillögu en málinu sé þó ekki lokið af hálfu Alþingis, enda geti „möguleg afbrot ráðherrans varðað ráðherraábyrgð lögum samkvæmt, þrátt fyrir að hún hafi nú sagt af sér“.