Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segja handritin örugg í húsi íslenskra fræða

Mynd: arnastofnun.is / arnastofnun.is

Segja handritin örugg í húsi íslenskra fræða

25.04.2018 - 17:01

Höfundar

Ögmundur Skarphéðinsson arkitekt og Vésteinn Ólason fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar svara gagnrýni Guju Daggar Hauksdóttur, arkitekts og pistlahöfundar Víðsjár, á hús íslenskra fræða sem stendur til að byggja.

„Við vorum sannfærð um að þessi mál væru vel leyst, en auðvitað var líka gert ráð fyrir því að það yrði unnið nánar í hönnuninni og gerðar yrðu nánari útfærslur út frá þeim ströngu kröfum sem við hljótum að gera þegar um er að ræða varðveislu þjóðargersema,” segir Vésteinn Ólason, fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar um hús íslenskra fræða, en hann sat í dómnefndinni sem valdi vinningstillöguna á sínum tíma.

Rætt var við Véstein Ólason og Ögmund Skarphéðinsson arkitekt í Víðsjá í kjölfar gagnrýni Guju Daggar Hauksdóttur, arkitekts og pistlahöfunds Víðsjár, á hús íslenskra fræða.

Í pistlinum er Guja Dögg nokkuð gagnrýnin á hugmyndir arkitektanna á bak við vinningstillöguna. Hún segir þá staðreynd að gersemar þjóðarinnar, þúsund ára gömul og ómetanleg skinnhandrit, verði geymd neðanjarðar, við hlið bílastæðakjallara, eldhúss og sorpgeymslu, beint undir yfirborði vatnstjarnarinnar sem umlykur húsið á alla vegu, veki henni nokkurn ugg.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðan pistillinn fór í loftið, þá er Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, ósátt við þessi orð Guju Daggar, og segist hún í viðtali við Stundina óttast að með þessum orðum hafi Guja Dögg „sáð efasemdafræjum um öryggi handritanna í huga þjóðarinnar”.

Vésteinn ítrekar í samtali við Víðsjá að í allri vinnu dómnefndarinnar hafi verið lögð mikil áhersla á öll öryggisatriði. „Spurning eins og sú hvort að handritageymsla á að vera í kjallara eða ofar í húsi, þar kemur margskonar áhætta til og engin getur leyst það hundrað prósent. En það er fleira heldur en vatn sem getur komið fyrir, og vatni er hægt að verjast yfirleitt, það er til dæmis jarðskjálftar, hryðjuverk og loftárásir. Hús getur hrunið en það sem er neðst í því er kannski best varðveitt. Ég er nú enginn sérfærðingur í þessu en við höfðum samráð við sérfræðinga.“

Ögmundur Skarphéðinsson, arkitekt hjá Hornsteinum ehf. sem hanna húsið, segir töluverðar breytingar hafa verið gerðar á húsinu á þeim tíu árum sem liðin eru frá samkeppninni, meðal annars varðandi aðgengi fyrir alla, en að grunnnálgun hönnunarinnar byggi á þeim kröfum sem snúi að starfsemi hússins. „Þetta verkefni sem hefur verið í mótun í dálítinn tíma hefur auðvitað verið mikil áskorun fyrir hönnunarteymið sem hefur mótað þetta hús ásamt starfsfólki Árnastofnunar og Háskólans, og það er ekki síst hlutverk þessa hóps að ganga úr skugga um það að allir alþjóðlegir öryggisstaðlar séu uppfylltir og að handritin séu varðveitt við bestu skilyrði.“

Hægt er að hlusta á umfjöllun Víðsjár í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Pistlar

Ný íslensk menningarhús