Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja fyrirvara um forræði Íslands skýra

20.08.2019 - 01:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Séu þingsályktunartillaga utanríkisráðherra og þingsályktunartillaga og lagafrumvörp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ásamt greinargerðum og öðrum gögnum, lesin saman telja sérfræðingarnir að fyrirvörum um þriðja orkupakkann sé réttilega haldið til haga.

Þeir Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson, lögfræðingur, greindu utanríkismálanefnd frá þessu í morgun. Þeir segja mikilvægt að fyrirvarar Íslands við upptöku og innleiðingu þriðja orkupakkans séu settir fram með skýrum hætti. Það eru fyrirvarar um stjórnarskrá og um forræði Íslands á lagningu sæstrengs.

Skjölin sem þeir Friðrik Árni og Stefán Már nefna til sögunnar eru nokkur. Þeir benda á að í 2. kafla greinargerða með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er lagt til að Alþingi samþykki þriðja orkupakkann á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB. Ákvæði um slík grunnvirki eigi því ekki við og hafi ekki raunhæfa þýðingu hér á landi.

Jafnframt segir í greinargerðinni að grunnvirki sem geti flutt raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun lagagrundvallar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins, EB, um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði. Friðrik Árni og Stefán Már benda svo á að í þingsályktunartillögu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra komi fram að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis.

Enginn sæstrengur án samþykkis

Að auki segir í drögum að reglugerð um innleiðingu á reglugerð EB um Samstarfsstofnunina að þar sem íslenska raforkukerfið sé ekki tengt raforkukerfi annars lands komi ákvæði reglugerðarinnar sem varða raforkutengingar milli landa ekki til framkvæmda á Íslandi á meðan slíkri tengingu hefur ekki verið komið á. Grunnvirki sem geri slíkt mögulegt verði ekki reist nema að undangengnu samþykki Alþingis og endurskoðun á stjórnskipulegum lagagrundvelli reglugerðarinnar, segir jafnframt í drögunum. Þeir Friðrik Árni og Stefán Már segjast ganga út frá því að fyrirvarar Íslands séu skilmerkilega kynntir viðeigandi aðilum að EES-samningnum með formlegum hætti verði umrædd þingmál samþykkt á Alþingi.

Hafréttur komi í veg fyrir skaðabótamál

Frosti Sigurjónsson, einn af forsvarsmönnum hópsins Orkan okkar, sagði við utanríkismálanefnd í morgun að þriðji orkupakkinn skuldbindi Ísland til að þvælast ekki fyrir ef einhver vilji leggja sæstreng. Þá sé Ísland líklega skaðabótaskylt ef ríkið leggst gegn lagningu sæstrengs. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskóla Reykjavíkur og sérfræðingur í hafrétti, segir hafréttarsamninga koma í veg fyrir slíkt skaðabótamál. Hann sagði alveg skýrt að íslenska ríkið réði því hvort einhver legði sæstreng inn fyrir landhelgi Íslands.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV