Segja föll faraldur meðal eldri borgara

05.06.2019 - 03:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjöldi eldri borgara yfir 75 ára aldri í Bandaríkjunum sem létust af völdum falla í Bandaríkjunum þrefaldaðist á 16 ára tímabili. Sérfræðingar hafa lýst ástandinu sem faraldri.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem birt var í riti Læknasamtaka Bandaríkjanna og tók til áranna 2000 til 2016.

Árið 2000 létust 8.613 eldri Bandaríkjamenn af völdum falla en 25.189 árið 2016.

Svipuð þróun hefur verið víða um Evrópu. Í Frakklandi hefur föllum verið lýst sem aðkallandi heilsufarsvandamáli. Ekki liggur fyrir hvers vegna föllum hefur fjölgað jafn mikið og raun ber vitni.

Föll hafa alvarlegar afleiðingar

Um einn af hverjum þremur, 65 ára og eldri dettur á ári hverju og segir Marco Pahor, forstjóri öldrunarstofnunar við Háskólann í Flórída að slíkt geti haft alvarlegar og jafnvel lífshættulegar afleiðingar fyrir eldra fólk. Hann lýsir ástandinu sem faraldri.

Auk höfuðáverka og innvortis blæðinga geta föll valdið mjaðmarbrotum, áverkum á hnjám og ökkla. Föll marka oft á tíðum upphafið að langdvölum á sjúkrahúsi, aukinnar þarfar á aðstoð og mikillar sjúkraþjálfuna. Auk þess geta þau haft langvarandi áhrif á andlega líðan þeirra sem eldri eru.

Einn af hverjum fimm sem verða fyrir mjaðmarbroti geta aldrei gengið á nýjan leik. Í Bandaríkjunum er kostnaður í tengslum við föll einn sá mesti hjá sjúkrahúsum.

Lyf geta aukið hættuna

Öldrunarlæknar telja nokkrar hugsanlegar ástæður fyrir aukinni tíðni falla hjá eldri borgurum, þeir séu ef til vill duglegri við að stunda hreyfingu en áður. Offita sé einnig vaxandi vandamál, sem dregur úr styrk vöðva.

Læknavísindum hafi fleygt fram með þeim afleiðingum að meðferð á langvarandi sjúkdómum hafi batnað en bætt lífsgæði eldri borgara hafi setið á hakanum. Lyf sem notuð eru til að meðhöndla marga þá sjúkdóma sem eldra fólk glími við geti sömuleiðis aukið hættuna á föllum.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á áhrifum hreyfingar á föll sem sem einnig var birt í ritinu dregur hreyfing úr hættu á föllum, þrátt fyrir að hreyfingin auki ekki vöðvamassa.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi