
Segja bóluefni gegn ebólu haldið frá Kongó
„Eitt aðal vandamálið núna er sú staðreynd að bóluefni er í raun skammtað af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og of fátt fólk í áhættuhópi fær nauðsynlega vernd," segir í yfirlýsingu samtakanna. Þau vilja að sett verði á laggirnar sjálfstæður, fjölþjóðlegur stýrihópur til að „tryggja gagnsæi í birgðastjórn og upplýsingagjöf."
Um 225.000 hafa verið bólusett gegn ebólu með bóluefni frá þýska lyfjaframleiðandanum Merck síðan faraldurinn gaus upp í fyrra sumar en Læknar án landamæra segja það allt of lítið. „Hægt væri að bólusetja allt að 2.000 til 2.500 manns á dag, í stað þeirra 50 til 1.000 sem verið er að bólusetja þessa dagana," segir í yfirlýsingunni.
„Tilraunir Lækna án landamæra til að auka aðgengi að bólusetningu í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið hafa strandað á stífum reglum um úthlutun bóluefnis, sem settar eru af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Ástæðurnar fyrir þessu," segir í yfirlýsingunni, „eru óljósar." Bóluefnið sem notað er hafi sýnt sig í að vera hvorutveggja öruggt og skilvirkt og framleiðandi þess lýst sig reiðubúinn að útvega miklu meira af því. Skortur á áreiðanlegu bóluefni geti því ekki verið skýringin á þessari tregðu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar til að dreifa því.
Stofnunin neitar ásökunum samtakanna um að hún takmarki aðgengi að bóluefninu og segist í yfirlýsingu „gera allt sem í [hennar] valdi stendur" til að binda enda á faraldurinn.