Segja ákvörðun Icelandair einhliða

31.08.2019 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Ákvörðun Icelandair um breytingar á starfshlutfalli og störfum um 140 flugmanna og flugstjóra var ekki tekin í samráði við Félag íslenskra atvinnuflugmanna, FÍA.

Morgunblaðið greindi frá. RÚV greindi frá því í gær að 111 flugmenn myndu færast niður í 50 prósent starf og þrjátíu flugstjórar yrðu færðir í tímabundið starf flugmanns hjá Icelandair. Þetta væri gert til að lágmarka áhrif kyrrsetningar MAX-vélanna á rekstur félagsins. Þetta kæmi til viðbótar því að vetraráætlun félagsins hefði þegar haft áhrif á störf um hundrað flugmanna.

Vildu ekki tjá sig í gær

Félag atvinnuflugmanna vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu í gær en sögðust ætla að funda um málið eftir helgi. Í Morgunblaðinu er haft eftir Guðmundi Má Þorvarðarsyni, varaformanni FÍA, að hann hefði heyrt lítið frá félagsmönnum en staðfesti að fundur yrði haldinn í næstu viku. Guðmundur Már sagði þetta sennilega talsverða tekjuskerðingu þessara einstaklinga. 

Ekki heimild fyrir lækkun starfshlutfalls

Hæstaréttarlögmaður sagði í samtali við Morgunblaðið að vinnuveitandi gæti lækkað starfshlutfall starfsmanna með samþykki eða ef ákvæði um slíkt væri að finna í kjarasamningi. Ef það sé ekki gert, þurfi að gera það með uppsagnarfresti. Að sögn Guðmundar eru engin ákvæði að finna um lækkun starfshlutfalls í kjarasamningum flugmanna. „Það er ekki heimild fyrir einhliða aðgerð sem þessari í kjarasamningum flugmanna."

Tóku fréttunum með jafnaðargeði

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að þeir flugmenn sem fundað hafði verið með hafi tekið fréttunum með jafnaðargeði. „Auðvitað gerist þetta mjög hratt," sagði hann. Tilkynning var send á flugmennina fyrir hádegi og þeir boðaðir á fund rétt eftir hádegi í gær. Þá útilokaði hann ekki að grípa þyrfti til uppsagna ef ekki yrði hægt að taka MAX-vélarnar í notkun í janúar. 

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi