Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segja að Sigmundur Davíð sé ekki hættur

05.04.2016 - 21:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í tilkynningu til erlendra fjölmiðla frá Stjórnarráðinu kemur fram að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hafi falið varaformanni flokksins að taka við forsætisráðuneytinu í ótilgreindan tíma. Hann hafi ekki sagt af sér og muni áfram vera formaður Framsóknarflokksins. Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, telur upplýsingarnar ekki villandi en vísar að öðru leyti á Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmann fráfarandi forsætisráðherra.

Kjarninn greindi fyrst frá og birtir bréfi í heild sinni. Mbl.is og Visir.is hafa einnig fjallað um bréfið sem hefur vakið nokkra athygli.  Fjölmiðlamaðurinn Richard Milne, sem vinnur hjá Financial Times, vakti fyrst athygli á málinu á Twitter-síðu sinni.

Hann segir í samtali við fréttastofu í kvöld að þessi yfirlýsing hafi komið sér á óvart miðað við þær fréttir sem hafi komið frá Íslandi í dag um afsögn Sigmundar Davíðs. „Þetta er bara leikur að orðum,“ segir Milne og bætir við að það hafi verið ótrúlegt að fygjast með þessum farsakennda degi.

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðamaður fráfarandi forsætisráðherra, segir í samtali við fréttastofu að þetta sé alls ekki óljóst. Sigmundur Davíð hafi lagt það til að Sigurður Ingi  taki við forsætisráðherraembættinu í ótilgreindan tíma - það geti þýtt fram að næstu kosningum. Jóhannes bendir enda á að í Kastljósi í kvöld hafi bæði Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson opnað á þann möguleika að flýta kosningum.

Hvað varðar þá setningu að Sigmundur hafi ekki sagt af sér eða „The Prime Minister has not resign,“ segir Jóhannes að Sigmundur hafi ekki sagt af sér - hann sé enn starfandi forsætisráðherra og verði það þar til hann hafi skilað umboði sínu til forseta Íslands sem muni væntanlega gerast á næstu dögum. Sigmundur muni tjá sig við fjölmiðla á morgun.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV