Segist hafa fullan rétt á afskiptum af dómsmálum

15.02.2020 - 04:10
epa08218669 US President Donald J. Trump makes remarks to the National Border Patrol Council in the South Court Auditorium of the Eisenhower Executive Office Building on the White House campus in Washington, DC, USA, 14 February 2020.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjaforseti telur sig hafa fullt leyfi til þess að skipta sér af glæpamálum sem eru fyrir dómi. Frá þessu greindi hann á Twitter í gær. Dómsmálaráðherrann William Barr kvartaði undan því í sjónvarpsviðtali á fimmtudag að framferði forsetans á Twitter gerði starf hans oft allt að því ómögulegt. 

Barr sagði í sjónvarpsviðtali við ABC fréttastöðina á fimmtudag að hann teldi tíma til kominn fyrir Donald Trump Bandaríkjaforseta að hætta að tísta um glæpamál dómsmálaráðuneytisins.

Trump hefur verið sakaður um að skipta sér af máli eins ráðgjafa sinna, Rogers Stone. Stone var dæmdur fyrir sjö ákæruliði í nóvember, og mæltu saksóknarar dómsmálaráðuneytisins með sjö til níu ára fangelsisvist fyrir dómi á mánudag. Eftir að Trump lýsti gremju sinni á Twitter yfir ósanngjarnri málsmeðferð og allt of harðri tillögu saksóknara barst dómnum nýtt bréf frá dómsmálaráðuneytinu degi síðar, eða á þriðjudag. Þar var krafist vægari refsingar en í bréfinu daginn áður, án þess að tilgreina sérstaklega lengd dómsins. Saksóknararnir sögðu sig allir frá málinu í kjölfarið, og tveir þeirra hættu störfum hjá ríkissaksóknara.

Barr sagði ekkert til í því að Trump hafi haft samband við hann vegna málsins. Raunar hafi Trump aldrei skipt sér af nokkru glæpamáli beint við ráðuneytið. Hann sagði tístið engu að síður hafa sett hann í erfiða stöðu. Annað hvort varð hann að standa með eigin sannfæringu og krefjast vægari dóms en saksóknararnir þrátt fyrir tístið, eða hætta við það allt saman vegna tístsins. Hann sagðist á endanum hafa gert það sem hann taldi rétt, og hann láti engan segja sér fyrir verkum í ráðuneytinu.

Trump lét kröfu ráðherrans um að yfirgefa ritvöll Twitter sem vind um eyru þjóta. Í gær vísaði hann í orð dómsmálaráðherrans um að Trump hafi aldrei beðið hann um nokkuð varðandi glæpamál í ráðuneytinu. Það þýði þó ekki að hann eigi ekki rétt á því. Sem forseti hafi hann lagalegan rétt til að skipta sér af dómsmálum ráðuneytisins að hans sögn, en hann hafi hingað til ákveðið að láta slíkt vera. 

Stone var meðal annars dæmdur fyrir að bera ljúgvitni fyrir þingi og að reyna að hafa áhrif á vitni. Lögmenn hans kröfðust í gær nýrra réttarhalda í máli hans. Stuðningsmenn Stone segja einn kviðdómara í máli hans hafa verið andsnúinn honum áður en réttarhöldin hófust. Trump tók undir þessar ásakanir, og sagði leiðtoga kviðdómsins hafa verið hlutdrægan. „Bætið því ofan á allt annað og þá lítur þetta ekki vel út fyrir ráðuneyti „dómsmála"," skrifaði Bandaríkjaforseti á Twitter. 

Dómur yfir Stone á að vera kveðinn upp í næstu viku.