Segist ekki skilja viðbrögð við gróðureldum í Ástralíu

22.01.2020 - 11:29
epa07207787 Former prime minister Malcolm Turnbull speaks to media after delivering an address at the NSW Smart Energy Summit in Sydney, New South Wales (NSW), Australia, 04 December 2018.  EPA-EFE/DAN HIMBRECHTS  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Malcolm Turnbull. Mynd: EPA-EFE - AAP
epa08143569 Australian Prime Minister Scott Morrison speaks during a press conference at Parliament House in Canberra, Australia, 20 January 2020.  EPA-EFE/MICK TSIKAS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. Mynd: EPA-EFE - AAP
Malcolm Turnbull, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, fór hörðum orðum um eftirmann sinn Scott Morrison í viðtali við breska útvarpið BBC og gagnrýndi viðbrögð hans við gróðureldunum í landinu. Turnbull beindi einnig spjótum að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og gagnrýndi stefnu hans í loftslagsmálum. 

Turnbull hrökklaðist frá völdum í Frjálslyndaflokknum í ágúst 2018 og sagði þá af sér embætti forsætisráðherra. Scott Morrison komst þá til valda. Greinilegt er á viðtalinu að ekki eru kærleikar þeirra á milli.

Turnbull sagðist ekki skilja viðbrögð Morrisons við gróðureldunum í Ástralíu. Fyrirfram hefði verið ljóst að ástandið yrði slæmt enda miklir þurrkar.

Í stað þess að gera það sem leiðtogi hefði átt að gera hefði Morrison virt að vettugi viðvaranir vísindamanna og gert lítið úr áhrifum hnattrænnar hlýnunar og þannig afvegaleitt áströlsku þjóðina. Svo hefði hann farið í frí til útlanda þegar eldarnir voru í hámarki.

Turnbull gagnrýndi einnig forvera sinn á stóli forsætisráðherra Tony Abbot og sagði hann helsta afneitunarsinna í loftslagsmálum í Ástralíu.

Þá sakaði hann Trump Bandaríkjaforseta um að reyna að torvelda alþjóðasamfélaginu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það væri skaði að Bandaríkin væru ekki í forystu í þeim efnum.

Mikið land hefur brunnið í Ástralíu síðan í september eða meira en 80.000 ferkílómetra. Þrjátíu hafa farist og þúsundir misst heimili sín. Rigningar hafa dregið úr eldunum að undanförnu, en fram undan er þurrviðri og hætta á því að þeir færist í aukana á ný.

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi