Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir Weinstein hafa níðst á varnarlausum konum

22.01.2020 - 20:59
epa08151240 Former Hollywood producer Harvey Weinstein (2-L) arrives with his defense lawyers for the first day of his sexual assault trial at New York State Supreme Court in New York, New York, USA, 22 January 2020. The trial, which is expected to last for about eight weeks, is based on sexual assault and rape allegations of two separate women.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
Harvey Weinstein á leið í dómsal í New York í dag, ásamt lögmanni sínum.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Saksóknarar lýstu kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weistein sem skepnu og nauðgara sem misbeitti valdi sínu sem stórlax í kvikmyndabransanum til að níðast á ungum leikkonum. Þetta sögðu þeir í opnunarræðum sínum í réttarhöldunum yfir Weinstein í dag.

Aðstoðarsaksóknari New York-ríkis, Meghan Hast, sagði að það verði lögð á það áhersla við réttarhöldin að kvikmyndaframleiðandinn fyrrverandi hafi vitað að hann væri að níðast á varnarlausum konum, sem margar hafi ekki átt neitt bakland. 

„Þær vissu ekki að þær voru tældar. Þær héldu að þær væru að fá stóra tækifærið. Hann var eins og vonda nornin í Hans og Grétu, lokkandi börnin til sín,“ sagði Hast í dag. 

Yfir áttatíu konur hafa sakað Weinstein um kynferðisbrot og varð mál hans kveikjan að Metoo-hreyfingunni. Hann hefur jafnframt verið ákærður fyrir tvö önnur kynferðisbrot í Los Angeles en ekki hefur verið ákveðið hvenær réttarhöld í því máli fara fram.

Weinstein er gefið að sök að hafa nauðgað Sopranos-leikkonan Annabella Sciorra veturinn 1993-1994 eftir að hann byrlaði henni lyfjum. Hann er einnig sakaður um að hafa nauðgað Mimi Haleyi, aðstoðarframleiðanda, í íbúð í New York árið 2006. Þá er honum einnig gefið að sök að hafa nauðgað leikkonunni Jessica Mann á hóteli í New York árið 2013. 

Búist er við því að lögmenn Weinstein leggi fram tölvupóst á vinalegum nótum á milli Weinstein og tveggja þeirra kvenna sem hann er sakaður um að hafa beitt kynferðisofbeldi, að því er AFP fréttastofan greinir frá. Með því vilji þeir sýna að þau hafi átt í sambandi og að það hafi verið mun seinna sem þær hafi sakað hann um kynferðisbrot. 

Weinstein er 67 ára gamall og gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.