Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir vistheimili hafa gleymst í kerfinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir að íbúar á Bjargi, vistheimili fyrir geðfatlaða karla, fái ekki örorkubætur og séu því snuðaðir um allt að 100 þúsund krónur mánaðarlega í áratugi. 

 

Samningaviðræður standa yfir milli ríkis og forstöðumanns vistheimilisins Bjargs, um áframhaldandi rekstur þess til eins árs. Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að vistheimilið hafi gleymst í kerfinu og að íbúar fái ekki þá þjónustu sem þeir eiga rétt á hjá sveitarfélaginu.

„Það gleymdist að færa stofnunina yfir til sveitarfélaganna við yfirfærsluna til sveitarfélaganna árið 2011. Þessi stofnun hefur veirð rekin á lágmarks fjárframlagi í langan tíma. Það sem við sjáum í Geðhjálp er það að fólk með flóknar fatlanir það, eins og geðfötlun það gleymist oft í kerfinu sérstaklega ef fólkið sjálft er ekki öflugir talsmenn og baklandið er kannski veikt,“ segir Anna.

Hjálpræðisherinn hefur rekið vistheimilið í hálfa öld en vill nú að hið opinbera taki við rekstrinum. Vistheimilið er á Seltjarnarnesi. Félagsmálaráðherra sagði í kvöldfréttum sjónvarps í gær að áframhaldandi rekstur heimilisins yrði tryggður og til að Seltjarnarnes sinni skyldum sínum gagnvart heimilinu kæmi til greina að beita bæinn dagsektum. Bærinn telur sig ekki eiga að taka við rekstrinum. 

Anna segir að óháð því hverjir taka við rekstrinum þurfi að bæta lífsskilyrði íbúa, það þurfi að tryggja þeim örorkubætur, nú fái þeir vasapening þar sem vistheimilið sé skilgreint sem stofnun. Margir hafa þeir búið á Bjargi í áratugi. 

„Við höfum reiknað út gróflega að þeir hafi í raun verið snuðaðir um allt að 100 þúsund krónur á mánuði í allt að 30 ár. Þeir hafa heldur ekki fengið þjónustu eins og liðveislu og aksturþjónustu frá sveitarfélaginu. Þeir hafa ekki fengið þá endurhæfingu sem þeir ættu að fá. Það skortir á að þeir fái nægilega mikla heilbrigðisþjónustu líka. Þannig það er mjög margt sem þarf að laga og þarf að ganga í strax,“ segir Anna.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV