Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir vert að skoða skilti við Vaðlaheiðargöng

20.03.2019 - 08:44
Mynd:  / 
Engin skilti eru við Vaðlaheiðargöng sem vísa ferðamönnum og öðrum vegfarendum á veginn um Víkurskarð. Með því að fara veginn um Víkurskarð sparast 1500 krónur í veggjöld. G. Pétur Mathíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að vert sé að skoða uppsetningu á skiltum við göngin en þó þurfi að forðast „skiltaskóg. "

G. Pétur var gestur Morgunútvarpsins á Rás tvö í morgun. Hann segir ekkert einfalt svar við því af hverju engin skilti séu við göngin. Meginreglan sé að vísa á stystu leið sem í þessu tilfelli sé í gegnum göngin. Eins hafi ekki verið gert ráð fyrir skiltum í útboðsverkinu. „Þarna í þessu tilviki er það náttúrulega hringvegurinn, Þjóðvegur 1, þannig að það er ósköp eðlilegt að það sé leiðin til Húsavíkur. Þetta kom nú bara til þannig að þegar við fórum að skoða þetta, þetta er hluti af útboðsverkinu, skiltin í kringum Vaðlaheiðargöngin. Þannig að þetta var nú bara hannað svona og teiknað fyrir 8-9 árum og þá gera menn það bara eins og þeir telja eðlilegt að merkja. “

G. Pétur segir engar reglur kveða á um að allar leiðir þurfi að vera merktar. Vegvísunarkerfið vísi alltaf á stystu leið og sjaldnast séu fleiri en ein leið merktar á kort.  Nú eigi til að mynda að fjarlæga skiltin við Hvalfjarðargöng sem vísa á Akranes með leið um Hvalfjörð. 

„Það er bara óeðlilegt þegar þú kemur að Hvalfjarðargöngunum að þér sé vísað á Akranes fyrir Hvalfjörð. Það er náttúrulega vísað á stystu leið. En það er með svona kerfi, þetta vegvísunarkerfi, það er ekki hlaupið að því að gera þetta þannig að það sé sem best á hverjum stað og samt alltaf sama reglan. Við vísum á nærstaði og fjarstaði og það er reynt að hafa einhverju reglu í þessu til þess að það sé einhver skynsemi í þessu. “

Hann segir vert að skoða það að sett verði upp skilti við Vaðlaheiðargöng. Það þurfi þó að  hugsa gaumgæfilega því Vegagerðin vill forðast ofgnótt af skiltum. „Síðan er líka sjónarmið að við getum ekki verið með það sem við köllum skiltaskóg. Við þurfum líka að reyna að takmarka það sem er sett upp. Þannig að það eru ýmis sjónarmið og hlutir sem menn verða að horfa á. En í þessu tilviki er þetta kannski sjónarmið sem við þurfum að hugsa betur því á nokkrum stöðum er vísað á tvær leiðir þó það sé ekki algengt.“ 

Hlusta má á viðtalið við G. Pétur í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV