Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir vegakerfið í Öræfum sprungið

08.06.2019 - 09:48
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi segir að vegakerfið í Öræfum sé sprungið. Mest liggi á að breikka vegi en ekki lækka hámarkshraða á svæðinu.

Yfir sumartímann koma rúmlega tvö þúsund ökutæki á dag í Skaftafell. Að sögn Vegagerðarinnar fara þar fimmfalt færri yfir vetrartímann.

Gagnrýnt hefur verið að vegurinn í Öræfum sé of þröngur. Jón Garðar Bjarnason, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi tekur undir það. „Í fyrsta lagi tel ég mikilvægt að horfa á breidd vega, losna við einbreiðar brýr, merkja vegi betur og auka viðvörunarskilti og annað slíkt,“ segir Jón Garðar.

Ber vegakerfið þessa umferð? „Stutta svarið er nei. Við erum í rauninni sprungin með vegakerfið.“

Skiptar skoðanir um að lækka hámarkshraða

Flest slysin verða frá Hnappavöllum að Freysnesi. Speglar stórra bifreiða hafa ítrekað slegist saman þar sem rúta valt fyrr í mánuðinum. Eftir slysið hafa vaknað hugmyndir um að lækka hámarkshraða, en íbúar eru ekki sáttir við það.

„Þessir kaflar þar sem vegirnir eru of þröngir, þeir eru of langir. Ef allir væru að aka þetta á 50, er þetta ekki framkvæmdalegt á þeim dagafjölda sem ferðamennirnir hafa til umráða hér í ferðalagi. Þetta gengur ekki upp, þannig það verður að finna aðrar lausnir,“ segir Sigrún Sigurgeirsdóttir, íbúi og starfsmaður í Skaftafelli.

Finnst þér að það ætti að lækka hámarkshraða hér á þessu svæði? „Mér finnst heildstætt að það ætti að skoða það. En það eru þættir sem mér finnst liggja meira á,“ segir Jón Garðar. „En að vera að setja heilu svæðin undir 70 eða þess háttar. Ég er ekki viss um að það skili miklu í endann.“ 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV