Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir veðrið óheppilegt á Akureyri í dag

04.11.2019 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: Úlla Árdal - RÚV
Mjög mikil loftmengun er á Akureyri í dag. Engar hálkuvarnir hafa verið notaðar þar í haust og svifryk síðustu daga því ekki vegna þeirra. Formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar segir svifrykið líklega vegna notkunar nagladekkja.

Mjög mikið svifryk er á Akureyri í dag og er börnum og fólki með viðkvæm öndunarfæri vöruð við útivist í nágrenni við miklar umferðargötur. Klukkan þrjú í dag fóru gildi í mælum við Strandgötu upp í 207 µg/m³. Fari gildi yfir 150 µg/m³ getur jafnvel fólk með heilbrigð öndunarfæri fundið fyrir óþægindum. 

Sennilega tilkomið vegna nagladekkja

„Grunnástæðan er að það er mjög hægur vindur og alveg þurrt. Vanalega eru þetta aðstæður sem við erum ánægð með en varðandi svifrykið er þetta óheppilegt,“ segir Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs. Svifrykið sem er á sveimi núna sé þó ekki vegna hálkuvarna því þær hafi ekkert verið notaðar í haust. Þetta sé sandur og ryk sem berst upp af götunum sem sé þá væntanlega tilkomið vegna nagladekkja sem séu þó bara búin að vera í notkun í nokkrar vikur. 

Munu nota meira af vandaðari efnum

Loftmengun á Akureyri var nokkuð oft mikil eða mjög mikil í vor þegar snjóa tók að leysa. Þá sagði Andri í samtali við fréttastofu að þegar þetta væri farið að fara margsinnis yfir heilsuverndarmörk á ári væri ástandið orðið óviðunandi og það þyrfti að taka fastar á málunum. Spurður að því hvort eitthvað hefði breyst síðan þá sagði Andri að í vor hefðu öðruvísi hálkuvarnarefni verið reynd á takmörkuðum stöðum og göturnar verið bleyttar með sjó. Það hafi skilað misjöfnum árangri. Í vetur verði sandur með saltblöndu notaður sem hálkuvörn, „en reiknum með að nota meira af vandaðari efnum, harðari efnum, sem brotna ekki eins mikið niður í ryk“. Það skili sér vonandi í minna svifryki. 

Annað sem rætt var í vor var að þvo göturnar betur og meira en áður. Göturnar hafi ekki verið þvegnar í haust áður en það fór að snjóa, sagði Andri: „Á sumrin eru þær nokkuð hreinar þegar það er búið að hreinsa þær vel eftir veturinn, hreinsa burt öll hálkuvarnarefni og slíkt frá vetrinum, þannig það kemur okkur kannski aðeins á óvart núna að það skuli vera svona mikið ryk á götunum snemma að hausti,“ segir hann. 

Vandamál vegna svifryks eru ekki ný af nálinni. Í vor var efnt til átaksins Grás dags til að sporna við svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu. Þá var ókeypis í strætó og götur bleyttar til að binda ryk. Það vakti mikla athygli að ástandið á Akureyri hafi reynst öllu verra þrátt fyrir að þar sé alltaf ókeypis í strætó og minni umferð en á höfuðborgarsvæðinu.