Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir umsókn í gildi, bréfið breyti engu

15.03.2015 - 19:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði segir að bréf ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins sé meiriháttar stefnubreyting hjá ríkisstjórninni því hún hafi hætt við að slíta formlega umsókn um aðild að ESB. Eina leiðin til slita sé sama formlega leiðin og farin var 2009.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í fréttum í gær að bréf ríkisstjórnarinnar til ESB um að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki sé jafngild leið og að fara í gegnum þingið. Þessum kafla væri lokið. „Hér virðist vera á ferðinni einhvers konar diplómatísk tilraun til þess að láta aðildarviðræðurnar enda án þess að umsóknin sé formlega dregin til baka. Ísland sótti formlega um aðild að Evrópusambandinu og eina leiðin til þess að afturkalla þá umsókn er að slíta þeim þá með alveg jafnformlegum hætti. Hér er á ferðinni að mínu mati meiriháttar stefnubreyting ríkisstjórnarinnar. Hún hefur þar með hætt við að slíta umsókninni formlega,“ segir Eiríkur. 

Formleg slit þýði hins vegar, segir Eiríkur, að vilji ný ríkisstjórn hefja aðildarviðræður þurfi að sækja um aftur og fá samþykki allra aðildarríkja ESB. Nú sé einfaldlega hægt að biðja um að taka upp þráðinn á ný með því nýju bréfi þar sem bréf ríkisstjórnarinnar nú væri afturkallað. „Aðildarumsókninni hefur einfaldlega ekki verið slitið. Hún hefur ekki verið afturkölluð og á meðan svo er ekki þá er hún einfaldlega í gildi. Það kann að vera að þeir í Brussel svona taki tillit til tilfinningalífs ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að taka menn af einhverjum listum en það breytir ekki formlegri stöðu málsins.“