Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir umræðu um hálendisþjóðgarð byggja á hræðsluáróðri

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Tryggvi Felixson, formaður Landverndar segir að andstaðan við hálendisþjóðgarð byggist á hræðsluáróðri sem ekki sé fótur fyrir. Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segir mikilvægt að ná samstöðu um stjórnun garðsins og að vafasamt sé að stimpla málflutning heimamanna sem hræðsluáróður.

Umhverfisráðherra hyggst leggja fram frumvarp um stofnun hálendisþjóðgarðs á vorþingi. Garðurinn verður um 30.000 ferkílómetrar og yrði sá stærsti í Evrópu. 

Ráðherra hefur kynnt frumvarpið á fundum með heimamönnum á Suðurlandi og þar hefur komið fram mikil andstaða við það, sem beinist helst að því að fólki finnst sem verið sé að taka af því öll yfirráð yfir hálendinu. Páll Magnússon alþingismaður Sunnlendinga segir þetta ríka tilfinningu fólks á Suðurlandi.

„Þeir staðhæfa að það sé einmitt það sem hafi gerst, að skipulagsvaldið, samkvæmt þeim hugmyndum sem uppi séu, eins og þetta er kynnt í dag, sé frá þeim tekið. Og ég er bara að leggja áherslu á það að það sé afar mikilvægt, þegar við erum að leggja á milli 30 og 40% af landinu inn í þennan þjóðgarð að um það takist eins víðtæk samstaða eins og hægt er. Og þetta verði ekki gert í fullkominni andstöðu við þá sem hafa þennan umgengnis- og umráðarétt í dag,“ segir Páll.

Tryggvi spyr á móti hverjir séu eiginlega heimamenn.

„Í náttúrunni erum við öll heimamenn, á hálendinu erum við öll heimamenn, ekki bara Íslendingar heldur líka þeir sem heimsækja okkur. Það er enginn sem á náttúruna eða hálendið, þetta eru þjóðlendur, það er búið að skilgreina það sem slíkt. En auðvitað verður að taka sérstakt tillit til þeirra sem hafa annast stjórnsýslu og nýtt þetta. Annað er ekki hægt og mér sýnist verið að gera það.“

Tryggvi segir að frumvarpið sé geysilega vel unnið og hann telur að andstaðan við það sé að mestu hræðsluáróður sem ekki sé fótur fyrir.

„Við vitum vel að þegar menn fara að blása í hræðslulúðrana, þá standa margir upp og óttast,“ segir Tryggvi.

Páll geldur varhug við þessum málflutningi.

„Mér finnst nú frekar vafasamt að stimpla málflutning þessa fólks sem einhvern hræðsluáróður. Ég held, þvert á móti, að það sem hefur komið frá aðliggjandi sveitarfélögum að þessu hálendi, hafi verið yfirvegað,“ segir Páll Magnússon.
 

Páll og Tryggvi voru gestir Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun.