Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segir ummæli ráðherra óheppileg

13.07.2016 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er ekki rétt að byggja þurfi jafngildi tveggja Kárahnjúkavirkjana ef sæstrengur verður lagður milli Íslands og Bretlands. Þetta segir forstjóri Landsvirkjunar. Virkjun á borð við Hrauneyjarfossvirkjun myndi duga.

Verkefnisstjórn sæstrengs skilaði í gær lokaskýrslum til iðnaðar- og viðskiptaráðherra um lagningu raforkusæstrengs milli Íslands og Bretlands. Starfshópurinn mat meðal annars áhrif sæstrengsins á efnahag, heimili og atvinnulíf, raforkuþörf sæstrengs og hvernig eigi að mæta henni. 

„Óheppilegur samanburður“

Í niðurstöðum starfshópsins kemur fram að nauðsynlegt sé að fara í virkjanaframkvæmdir, eigi sæstrengurinn að verða að veruleika. Iðnaðarráðherra sagði í gær að orkuþörfin yrði á borð við tvær Kárahnjúkavirkjanir. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar segir þetta ekki allskostar rétt. 

„Ég myndi nú telja að þetta væri frekar óheppilegur samanburður. Eins og kemur fram í skýrslunni að þá myndi sæstrengur gefa okkur möguleika á því að stórbæta nýtingu núverandi kerfis. Stór hluti þessarar orku og þessara framkvæmda er stækkun á núverandi virkjunum,“ segir Hörður.

Aflþörf ígildi tveggja Kárahnúkjavirkjana

Í skýrslunum ekki gert ráð fyrir að orkuþörfin sé ígildi tveggja Kárahnjúkavirkjana, aflþörfin sé það hinsvegar. Þannig er ráðgert að raforkan komi að hluta til úr nýtingarflokki rammaáætlunar, frá smávirkjunum, vindorku, lágjarðvarma og með aflaukningu í núverandi virkjunum. En hversu umfangsmiklar virkjanaframkvæmdir þyrfti Landsvirkjun að leggjast í?

„Það er ekki þörf á tveimur Kárahnjúkavirkjunum. Og það hefur hvergi komið fram að mér vitandi, og svo sannarlega ekki í þessari skýrslu og ekki í neinu sem við höfum lagt til. Skýrslan gerir eingöngu ráð fyrir að það séu um 250 megavött úr hefðbundnum virkjunum eins og við þekkjum þær, sem er ígildi einnar Hrauneyjarfossvirkjunnar eða innan við helming af einni Kárahnjúkavirkjun,“ segir Hörður.

Horfa til rammaáætlunar

En til hvaða virkjunarkosta horfir Landsvirkjun?

„Þar erum við náttúrulega bara að horfa til rammáæltunar. Það er mikilvægt að hafa í huga að sæstrengur mun ekki breyta því hvaða virkjanakosti við ákveðum að nýta,“ segir Hörður. Sæstrengurinn varpi hins vegar upp þeirri spurningu hvert Landsvirkjun vilji selja orkuna, beint inn á Evrópumarkað eða í iðnaðaruppbyggingu á Íslandi.

„Við sjáum bara fjölmarga virkjanakosti, bæði í jarðvarma og vatnsafli sem að gætu uppfyllt þessa 250-300 megavatta þörf sem skýrslan talar um.“

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður