Segir ummæli Önnu Kolbrúnar ómakleg

06.12.2018 - 01:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Steindór Valdimarsson, varaformaður þingflokks Viðreisnar, segir ummæli alþingiskonunnar Önnu Kolbrúnar Árnadóttur í útvarpsþættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun um starfsfólk Alþingis ómakleg.

Í færslu sem Jón Steindór skrifar á Facebook hefur hann eftir Önnu Kolbrúnu að: "Við höfum kannski stundum haldið að þetta sé fólkið að þetta séu alþingsmenn sem skapa þennan kúltúr en ég er svolítið farin að efast um að það séu bara alþingsmenn. Ég er að tala um stofnunina Alþingi vegna þess að starfsmennirnir, það eru allir mannlegir, þeir fara líka inn í þennan kúltúr þegar þeir fara þarna. ... Það er samt eitthvað þarna sem er óáþreifanlegt". 

Jón Steindór segir ummæli Önnu Kolbrúnar „afar ósmekklega aðdróttun um að starfsmenn Alþingis væru með einhverjum hætti hluti af einhverjum kúltúr sem umræðan á Klaustri væri sprottin af.“ Hann fer svo fögrum orðum um starfsfólkið og taka þingmennirnir Björn Leví Gunnarsson úr Pírötum og Andrés Ingi Jónsson úr Vinstri grænum undir þau orð Jóns Steindórs.

Anna Kolbrún sagði í viðtalinu í morgun að það væri mjög sérstakur „kúltúr“ inni á Alþingi. Það sé þannig að þegar fólk byrji á nýjum vinnustað sogist það inn í kúltúrinn sem fyrir er. Hún segir starfsmennina þó vera almennilega og hjálpsama. Það sé samt eitthvað þarna sem sé óáþreifanlegt.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV