
Segir ummæli Gunnars Braga hafa verið ótímabær
Evrópusambandið hefur framlengt viðskiptaþvinganir sínar gagnvart Rússum fram í júlí, en þær áttu að renna út í lok janúar. Ísland tekur þátt í aðgerðunum á grundvelli íslenskra reglugerða sem gilda ótímabundið, en íslensk stjórnvöld geta af sjálfsdáðum ákveðið að hætta þeim. Rússar brugðust við aðgerðum Íslendinga með því að banna innflutning á matvælum frá Íslandi. Innflutningsbannið bítur íslenskan sjávarútveg fastast. SFS áætla að þjóðarbúið verði af allt að 12 milljörðum króna vegna viðskiptabannsins.
„Þeir hagsmunir sem eru undir eru náttúrulega að við erum með 80 prósent af frystum loðnuafurðum okkar inn á Rússland, síðan er náttúrulega langstærsti markaður okkar fyrir makrílafurðir þarna, og við höfum verið að selja makríl núna fyrir um 30 prósent lægra verð en Færeyingar og Grænlendingar sem selja núna inn á Rússland. Og núna eru í biðstöðu samningar okkar um þorskinn í Barentshafinu,“ segir Jens Garðar í samtali við fréttastofu.
Hann segir að rekja megi ákvörðun Rússa um að fresta viðræðum við Íslendinga um þorskveiðar í Barentshafi beint til viðskiptaþvingana Íslendinga. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, sagði skömmu fyrir jól að ákvörðun ESB engu breyta um afstöðu Íslendinga, en afar skiptar skoðanir eru um ágæti viðskiptaþvingananna og útfærslu þeirra innan ríkisstjórnarflokkanna.
Réttara hefði verið að bíða eftir skýrslunni
Formaður SFS segir yfirlýsingu ráðherrans hafa verið ótímabæra, í ljósi þess að von sé á skýrslu sem unnin var fyrir samráðshóp stjórnvalda og sjávarútvegsins um fjárhagsleg áhrif viðskiptabannsins. Réttara hafi verið að bíða skýrslunnar og ræða málið upp á nýtt með hliðsjón af heildarhagsmunum þjóðarbúsins.
„Mér fannst hún ótímabær í ljósi þess að bæði er skýrslan ekki framkomin sem að tekur saman alla þá hagsmuni sem þjóðin hefur af því að halda áfram viðskiptum við Rússland og það á eftir að taka alla þessa umræðu í ríkisstjórn Íslands og síðast þegar ég vissi þá er utanríkisráðherra hluti af ríkisstjórninni. Ég held að við þurfum að skoða þetta og taka upplýsta umræðu um þetta alveg upp á nýtt,“ segir Jens Garðar Helgason formaður SFS.