Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir Trudeau hafa stungið Bandaríkin í bakið 

10.06.2018 - 14:11
Erlent · G7
epa06795025 US President Donald J. Trump, (L) and Canada's Prime Minister Justin Trudeau greet at the Welcome Ceremony at the G7 summit in Charlevoix in Canada 08 June 2018. The G7 Summit runs from 8 to 9 June in Charlevoix, Canada.  EPA-EFE/NEIL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Deilum í kjölfar fundar G7-ríkjanna virðist ekki ætla að ljúka í bráð. Helsti ráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta í efnahagsmálum, Larry Kudlow, hefur lýst því yfir að Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hafi stungið Bandaríkin í bakið í kjölfar fundarins. 

Vísaði Kudlow til yfirlýsingar forsætisráðherrans um að tollar yrðu lagðir á bandarískar vörur frá 1. júlí næstkomandi, sem svar við þeirri tilskipun Trump um að setja tolla á stál og ál sem flutt er frá Kanada til Bandaríkjanna.

Að sögn Kudlow, sem var gestur í spjallþætti á bandarísku fréttastöðinni CNN, vann Trudeau G7-samstarfinu mikið ógagn með ákvörðun sinni um að setja tollar á vörur frá Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn hafi unnið að málamiðlun um sameiginlega yfirlýsingu leiðtoga G7 í góðri trú en Trudeau launað þeim með þessum hætti.

Á blaðamannafundi í kjölfar G7 fundarins sagði Trudeau það nánast móðgandi að stjórnvöld í Bandaríkjunum vísuðu til öryggishagsmuna sem einnar ástæðu þess að leggja verndartolla á ál og stál. Kanada hafi staðið þétt við hlið Bandaríkjamanna síðan í fyrri heimsstyrjöld og verið dyggur bandamaður.

„Við Kanadabúar erum kurteist og sanngjarnt fólk en við látum ekki ráðskast með okkur,“ sagði Trudeau enn fremur.

Trump fór ófögrum orðum um Trudeau á Twitter í kjölfar G7-fundarins og dró stuðning sinn við yfirlýsingu leiðtoga ríkjanna til baka.

Kudlow sagði auk þess að mikilvægt hefði verið fyrir Trump að sýna hörku og staðfestu á G7-fundinum þar sem ekki mætti sýna veikleika í aðdraganda fundar Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu sem fram fer á þriðjudaginn í Singapúr.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV