Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir tjón Atla meira en það sem dómurinn bæti

Mynd: Fréttir / Fréttir
Leikfélag Reykjavíkur og Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri vógu að æru og persónu Atla Rafns Sigurðarsonar, leikara, með uppsögn hans úr Borgarleikhúsinu árið 2017 og voru í dag dæmd til að greiða honum bætur. Lögmaður Atla segir dóminn ekki geta bætt það tjón sem málið hafi valdið honum.  

Vegið að æru og persónu Atla

Atli stefndi Borgarleikhúsinu eftir að honum var sagt upp störfum þar vegna ásakana um kynferðislega áreitni í kjölfar metoo-bylgjunnar. Hann fór fram á 13 milljónir í bætur, þar af tíu milljónir í skaðabætur og þrjár milljónir í miskabætur. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag leikfélagið og Kristínu til þess að greiða Atla Rafni 5,5 milljónir króna í bætur og eina milljón í málskostnað. 

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að farið hafi verið á svig við lög og reglur þegar Atla var sagt upp störfum. Hann var upplýstur um fjölda ásakana en ekki frá hverjum þær hefðu komið, hvenær eða hvers eðlis þær væru. 

Leikfélaginu og Kristínu hafi borið að gæta að hagsmunum Atla Rafns og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, grípa til ráðstafana til að stöðva hegðunina og koma í veg fyrir að hún endurtæki sig. Þá hafi þau átt að upplýsa hann um hvers eðlis ásakanirnar væru og gefa honum færi á að breyta hegðun sinni - en það hafi ekki verið gert.

Í dóminum segir að ákvörðunin hafi verið meiðandi fyrir Atla sem sé þekkt persóna og hafði fram að uppsögn átt farsælan feril sem leikari. Vegið hafi verið að æru hans og persónu og ákvörðunin haft áhrif á líf hans og störf til lengri tíma litið. 

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd. - RÚV
Atli Rafn Sigurðarson og Krístín Eysteinsdóttir.

Kristín sjálf ábyrg ásamt Leikfélaginu

Atli tjáir sig ekki um dóminn að svo stöddu en vísar þess í stað á lögmann sinn, Einar Þór Sverrisson. 

„Hann náttúrulega er ánægður að þessi niðurstaða liggi fyrir en það má ekki gleyma því að þessi aðför leikfélagsins og Kristínar Eysteinsdóttur gegn honum er búin að valda honum alveg gríðarlegu tjóni og orðsporshnekki sem þessi dómur er í sjálfu sér ekkert að bæta honum, þetta er auðvitað miklu alvarlegra mál en það. “

Í dómnum segir að Kristínu leikhússtjóra hefði auk þess mátt vera ljóst að aðgerðir hennar hefðu mikil áhrif á orðspor, starfsheiður og umtal um Atla Rafn og yllu honum tjóni. Dómurinn kemst því að þeirri niðurstöðu að Kristín sé ábyrg ásamt leikfélaginu. 

„Það er hún sem að tók allar ákvarðarnir í málinu og virða ekki þær reglur sem gilda í samfélaginu um málsmeðferðina og því er eðlilegt að hún sé dæmd ábyrg með leikfélaginu, “ segir Einar Þór. 

Óvissa ríki um túlkun laga sem tryggi vellíðan og öryggi 

Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður Kristínar segir að innan tíðar verði ákveðið hvort dómnum verði áfrýjað en hvorki Kristín né leikfélagið vildu tjá sig um málið að svo stöddu. Stjórn leikfélagsins sendi fjölmiðlum yfirlýsingu eftir að dómur var kveðinn upp. Þar segir að til skoðunar sé að áfrýja dómnum til Landsréttar, meðal annars vegna þess að óvissa ríki um túlkun laga sem tryggja eigi vellíðan og öryggi starfsfólks.

Einar segir yfirlýsinguna algjörlega fráleita. „Það er bara þannig að ef dómurinn er lesinn þá er hann algjörlega skýr um það, þar sem farið er mjög nákvæmlega í gegnum þessar reglur sem gilda, og það er farið mjög nákvæmt í það að hátterni leikfélagsins fól í sér brot á þessum reglum. Þannig að það er engin óvissa um þetta. Reglurnar eru mjög skýrar."