Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir tímabært að selja Íslandsbanka í áföngum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Tímabært er að selja Íslandsbanka í nokkrum áföngum og nota fjármunina sem fyrir hann fást til að fjárfesta í innviðum. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali við blaðamann Morgunblaðsins. „Nú þegar hagkerfið kólnar er augljós kostur að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum og verja fjármunum sem þannig fást í innviðafjárfestingar, segir Bjarni.

Íslandsbanki er alfarið í eigu ríkisins. Eigið fé bankans er um 170 milljarðar og segir Bjarni ólíklegt að fullt, bókfært verð fáist fyrir hann, miðað við verðmat markaðarins á fjármálafyrirtækjum um þessar mundir. Engu að síður telur hann rétt „að losa um eignarhaldið í skrefum og 25% hlutur í bankanum er tuga milljarða virði.“

Einhverja af þeim milljörðum mætti til að mynda nýta til uppbyggingar samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu, segir fjármálaráðherra, sem telur sölu á Íslandsbanka geta breytt þeim hugmyndum sem uppi eru um að fjármagna þá uppbyggingu með notkunargjöldum.