Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir þurfa að setja GPS-mæla á Öræfajökul

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Setja þarf upp net GPS-mæla á Öræfajökul til að fá skýrari mynd af því hvort fjallið sé að búa sig undir eldgos. Þetta segir fagstjóri hjá Almannavörnum. Ekki sáust skýr merki um kvikugös í sýnum úr Kvíá og öðrum ám nærri jöklinum. Því má ætla að aukin jarðhitavirkni hafi skapað sigketilinn sem sást fyrst á jöklinum á föstudag.

Vísindamenn fóru á laugardag að Kvíá sem rennur undan Öræfajökli og tóku sýni sem voru svo efnagreind. Niðurstöðurnar voru kynntar í dag. Andri Stefánsson, jarðeðlisfræðingur segir að efnasamsetning vatnsins bendi til aukinnar jarðhitavirkni undir Öræfajökli. „Hitagjafinn er náttúrulega kvika og vatnið hitnar upp og leitar upp til yfirborðs, þannig að aukinn jarðhiti þýðir, jarðhitakerfið er einhvern veginn að stækka eða eflast,“ segir Andri.

Öræfajökull að byrsta sig

Tvær meginástæður eru taldar vera fyrir auknum jarðhita: 

  • Að hitinn stafi af auknum sprunguhreyfingum eða jarðskjálftum sem myndi sprungur í berginu undir ísbreiðunni. Gufa streymi þá upp um sprungurnar, eða leki í gegnum bergið og bræði þannig ís sem svo rennur í árnar.
  • Að það hafi orðið kvikuinnskot inn í bergið sem þá hitnar og bræðir ísinn.Hvort það bendi til þess að Öræfajökull sé að búa sig undir eldgos eða ekki, er ómögulegt að segja.

„Aukin jarðhitavirkni tengist náttúrulega einhverjum breytingum í eldfjallinu,“ segir Andri. „Þannig að það má svo sem segja að eldfjallið er að byrsta sig á einhvern hátt.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Vatn í Kvíá er bræðslu- og jarðhitavatn. Ekki sáust greinileg merki um kviku.

Þyrfti mælanet á jökulinn

Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri hjá Almannavörnum segir að enn ríki því óvissa um hvað sé á seyði í Öræfajökli.

„Í rauninni getum við ekki kafað niður í jörðina þannig að við vitum það ekki,“ segir Björn. Hann segir að til þess að komast að því hvort þensla sé í jöklinum þurfi að setja upp GPS-mælanet.

„Við þekkjum það vel frá öðrum atburðum eins og í Holuhrauni og Bárðarbungu og það er þá eitt af markmiðunum að setja upp slík tæki og til þess að geta fylgst með þróun, þá verður maður að hafa einhverja tímalínu og þá þurfum við einhvern tíma, vikur eða mánuði til þess að sjá hvort þenslan sé mikil eða lítil eða einhver yfir höfuð,“ segir Björn.

En er hægt að segja að Öræfajökull sé að búa sig undir eldgos? „Það má alveg nota það orðalag og þá komum við aftur að tímaskalanum, vikur, mánuði eða ár.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Setja þarf upp GPS-mælanet á Öræfajökul til að fylgjast betur með