Segir þjóðina svikna um stjórnarskrá

19.10.2019 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að stjórnvöld hafi í sjö ár svikið þjóðina um þá stjórnarskrá sem samþykkt hafi verið í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir sjö árum. Hún gefur lítið fyrir núverandi stjórnarskrárvinnu og telur hana ekki stuðla að heilsteyptri stjórnarskrá sem beðið hafi verið eftir. Jóhanna beinir einnig spjótum sínum að Hæstarétti og Sjálfstæðisflokknum.

Þetta segir Jóhanna í aðsendri grein á vef Fréttablaðsins í dag. Hún fjallar þar um stjórnarskrárferlið sem fór í gang eftir hrun. Þá var efnt til þjóðfundar um stjórnarskrármál og kosið til stjórnlagaþings. Hæstiréttur ógilti kosninguna og voru þau sem náð höfðu kosningu þá skipuð í stjórnlagaráð. „Tilraun Hæstaréttar til að ógilda þá kosningu er hneyksli og blettur á réttarsögunni,“ segir forsætisráðherrann fyrrverandi.

Jóhanna segir stjórnlagaráð hafa unnið mikið afrek, að komast að niðurstöðu um heildstæða stjórnarskrá á fjórum mánuðum, sem hafi reynst Alþingi ofviða á 70 árum frá stofnun lýðveldisins. „Tillögurnar skerptu á skilum milli löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds og fólu í sér valddreifingu, aukið gegnsæi og meiri ábyrgð valdhafa. Aukið var svigrúm almennings til þátttöku í ákvarðanatöku, bæði með þjóðaratkvæðagreiðslu og aukinni aðkomu að þingmálum. Með lögfestingu þeirra væri Ísland komið í fremstu röð þjóða heims m.a. með beinni þátttöku almennings í mikilvægum málum.“

Jóhanna rifjar upp mikla andstöðu stjórnarandstöðunnar við framgang tillagna stjórnlagaráðs sem hafi ekki náð fram að ganga. „Ekki vegna þess að vilja vantaði hjá ríkisstjórninni, heldur vegna heiftúðugrar og óbilgjarnar stjórnarandstöðu, sérstaklega Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þeir svifust einskis í nær fordæmalausu málþófi og beittu öllum brögðum til að koma í veg fyrir að nýr samfélagssáttmáli, sem samþykktur hafði verið með tveim þriðju hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, næði fram að ganga. Lýðræðið var fótum troðið.“ Hún lýsir ekki miklum vonum til þess að mikill árangur náist af núverandi stjórnarskrárvinnu. „Hætta er á með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn verði valinn lægsti samnefnari og haldlítið auðlindaákvæði.“

Þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs fór fram 20. október 2012. Kjörsókn var 49,7 prósent. Fyrsta spurningin var: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? 66,9 prósent sögðu já við þeirri spurningu en 33,1 prósent nei. 82,9 prósent vildu að náttúruauðlindir í einkaiegu væru lýtar þjoðareign og 78,4 prósent vildu að persónukjör yrði heimilað í meira mæli í kosningum til alþingis.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi