Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Segir þingmenn hafa stýrt mótmælum

26.02.2012 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn stýrðu mótmælum á Austurvelli úr Alþingishúsinu þannig að harðar var veist að lögreglumönnum. Þetta segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, sem vinnur nú að skýrslu fyrir lögreglustjóra um mótmælin. Geir Jón segir lögreglu hafi tekið þingmennina tali í kjölfarið.

Geir Jón  var gestur í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem hann sagði þingmenn hefðu haft áhrif á mótmælin á Austurvelli í búsáhaldabyltingunni. Hann vinnur nú að skýrslu um aðgerðir lögreglunnar. Að auki er í hann í framboði til annars varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Fréttastofa náði tali af Geir Jóni í morgun. Hann segir lögreglumenn hafi 20. og 21. janúar 2009 talið að þingmenn stýrðu mótmælunum. 

„Ég fékk það síðan staðfest að þingmenn, sem voru  inni í þinghúsinu þegar mótmæli stóðu yfir fyrir utan húsið, verið í samskiptum við lykilfólk sem tók þátt í mótmælunum. Lögreglumenn urðu varir við að það hafði áhrif á staðsetningu mótmælenda og beinlínis sáu að það hafði áhrif. Við sáum að það varð oft til þess að þeir brugðust harðar við, gengu kannski harðar fram gagnvart lögreglunni. Við upplifðum bara ákveðnar breytingar og hreyfingar á mótmælendum, þeir virtust hreyfa sig meira í kringum húsið“

Aðspurður segir Geir Jón það upplifun lögreglumanna að af hálfu þingmanna hafi einhver stýring verið í gangi. 

Aðfaranótt 22. janúar dró úr atgangi gagnvart lögreglumönnum þegar hópur fólks sló um þá skjaldborg. Geir Jón vill ekki segja hvað mótmælendurnir hafi nákvæmlega gert eða hvaða þingmenn hafi stýrt þeim. Þeir hafi hætt eftir að lögregla hafi tekið þá tali.