Segir sýknudóm yfir ríkinu vekja furðu

Mynd: RÚV / RÚV
Lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, Ragnar Aðalsteinsson, segir óskiljanlegt að Héraðsdómur skuli sýna sýknudómi Hæstaréttar yfir sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum fyrirlitningu. Hann segir að málinu verði áfrýjað til Landsréttar.

Guðjón krafðist 1,3 milljarða króna í bætur fyrir þá meðferð sem hann mátti þola í tengslum við hvarf Geirfinns Einarssonar á áttunda áratug síðustu aldar, en hann var alfarið sýknaður af aðild að hvarfi hans fyrir tveimur árum. Héraðsdómur sýknaði ríkið í dag af bótakröfu Guðjóns.

Ragnar segir sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur í dag vekja furðu. Sérstaklega sé undarlegt að sjá að dómurinn skuli nota sem rök fyrir sýknudóminum, annars vegar dóm Sakadóms frá 1977 og hins vegar Hæstaréttardóm frá 1980, þar sem Guðjón Skarphéðinsson var sakfelldur, en eftir sýknudóm Hæstaréttar fyrir tveimur árum séu þeir dómar algerlega marklaus plögg.

„Það sem mér þykir einna verst er að það skuli gerast í svokölluðu réttarríki á Íslandi að maður sem hefur verið dæmdur saklaus, að hann skuli ekki njóta þess að vera talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að nýju. Það er reyndar ekki reynt heldur er farið í hina ónýtu dóma sem er búið að fella úr gildi og reynt að styðjast við þá. Hvers vegna dómstóllinn telur mjög mikilvægt að reyna að halda því uppi að sakborningarnir séu sekir er mér óskiljanlegt og þessi fyrirlitning héraðsdómsins á dóma hæstaréttar síðan í hitteðfyrra, ég skil hana heldur ekki,“ segir lögmaðurinn. 

Ætla að áfrýja dómnum

Ragnar segir að dóminum verði áfrýjað til Landsréttar. Aðrir sakborningar úr þessum tveimur málum hafa einnig stefnt ríkinu og því spurning hvort dómsorðið í dag sé vísbending um hvernig öðrum málum kunni að lykta. „Það fer eftir því hvort að sama dómara verði falið að dæma í öllum málunum. Það verður bara að ljúka því með Landsrétti vegna þess að við getum ekki, hér á landi, staðið frammi fyrir alheiminum með þennan dóm og sagt: „svona dæmum við á Íslandi“.

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi