Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir svo mikinn laxadauða ekki geta talist innan marka

17.02.2020 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Formaður Landssambands veiðifélaga segir nýlegan dauða 500 tonna af eldislaxi hjá Arnarlaxi mikið áhyggjuefni. Það geti ekki talist innan marka að svo mikið af laxi drepist á svo skömmum tíma.

Laxadauðinn varð við Hringsdal eftir að hitastig sjávar lækkaði í Arnarfirði á Vestfjörðum vegna tíðarfars.

Sífellt er hætta á að lax sleppi úr kvíum með miklum áhrifum á íslenska laxastofninn, að sögn Jóns Helga Björnssonar, formanns Landssambands veiðifélaga. Þetta atvik staðfesti þær áhyggjur sem sambandið hefur talað um.

Skip frá útlöndum geta borið sýkingar með sér

Jón Helgi segir að hægt sé að hrósa Arnarlaxi fyrir að bregðast hratt við dauðanum. Áhyggjuefni sé engu að síður að skip séu fengin erlendis frá til að hjálpa til við slátrun. 

„Við veltum því fyrir okkur. Hvernig eru þessi skip sótthreinsuð? Hvernig sótthreinsar maður heilt skip sem er að vinna á eldissvæðum erlendis? Við höfum mjög miklar áhyggjur af því að það geti borist sýkingar erlendis frá með þessum skipum því auðvitað eru þau notuð þegar svipuð atvik koma upp annars staðar,“ segir hann.

Getur ekki talist innan marka

Jón Helgi gefur þá lítið fyrir ummæli stjórnarformanns Arnarlax um að laxadauðinn geti talist innan marka.

„Í grunninn getur það bara ekki verið eðlilegt að það sé að drepast 500 tonn af fiski á stuttum tíma. Ef það er eðlilegt þá hljóta menn auðvitað að fara að velta fyrir sér hvort þetta sé iðnaður sem menn geta fært rök fyrir að vera að stunda. Þetta er það gríðarlegt magn af fiski sem þarna er að drepast,“ segir Jón Helgi.