Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir stjórnvöld hafa búið í haginn þegar betur áraði

12.11.2019 - 19:59
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
„Undanfarin ár höfum við verið að skila myndarlegri afkomu til þess að nýta góðu árin og búa í haginn fyrir þann slaka sem við sjáum núna og það kemur sér mjög vel,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, aðspurður um tíu milljarða króna hallann í fjárlögum næsta árs. Nú blasi við breyttar forsendur, efnahagsaðstæður og horfur en þegar drög voru gerð að fjármálaáætlun.

Nú var  talsvert rætt um veiðigjöld hér í dag og bent á að þau væru fimm milljarðar króna og dygðu vart fyrir kostnaði. Kom ekki til greina að hækka tekjur ríkissjóðs, til að mynda veiðigjöldin, til að mæta þessum halla?

„Veiðigjaldaumræðan var kláruð í öðru frumvarpi áður og við erum bara að sjá það að miklar fjárfestingar í greininni leiða til þess að það dregur aðeins úr veiðigjöldum á næsta ári en það jafnar sig yfir lengri tíma. Ég tel að það sé engin ástæða til þess að fara einhverjar í slíkar viðbótarráðstafanir. Enda erum við að sjá að hagkerfið er að taka við sér að öllum líkindum. Því er spáð að hagvöxtur verði aftur á næsta ári og vextir hafa verið að lækka hjá Seðlabankanum. Þannig að við erum svona með því að gefa eftir afganginn sem við stefndum að og með öðrum hagstjórnaraðgerðum þá erum við svona að ýta hagkerfinu aftur í gang. Þannig að ég myndi segja að útlitið sé bara mjög gott og við séum akkúrat með opinberu fjármálin þar sem við viljum hafa þau þegar þessar aðstæður myndast. En auðvitað þurfum við að gæta að okkur að missa ekki opinberu fjármálin í halla á næstu árum.“

Nokkuð bjart framundan

Nú var einnig rætt um það hér í dag að þið væruð að nýta það svigrúm sem þið hefðuð samkvæmt lögum ríkisstjórnin og þannig væruð þið að taka einhverja áhættu ef það verði einhver dýfa á næsta ári. Hefurðu engar áhyggjur af því?  „

Nei, ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af því. Aðalatriðið er það að við erum núna að styðja við lífskjarasamningana, við erum með verðbólguna á réttum stað, heimilin finna fyrir því að menn hafa meira milli handanna,  hið opinbera getur tekið á sig þessar aðstæður og það er bara nokkuð  bjart framundan. “

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir