Segir Soleimani hafa ráðgert árásir á fjögur sendiráð

11.01.2020 - 02:57
epa08115538 US President Donald J. Trump speaks to his supporters during a rally at the Huntington Center in Toledo, Ohio, USA, 09 January 2020.  EPA-EFE/DAVID MAXWELL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sagðist í gær hafa ástæðu til að ætla, að Íranar hefðu ætlað sér að gera árás á fjögur bandarísk sendiráð, þar á meðal sendiráðið í Bagdad. Þetta upplýsti forsetinn í viðtali á Fox-sjónvarpsstöðinni, þar sem hann var spurður út í ástæðurnar að baki árás Bandaríkjahers á skotmark nærri alþjóðaflugvellinum í Bagdad, þar sem íranski hershöfðinginn Kassem Soleimani var ráðinn af dögum ásamt leiðtoga vopnaðra, írakskra samtaka.

Demókratar á þingi, sem setið hafa upplýsingafundi með fulltrúum leyniþjónustunnar um málið, segjast hins vegar ekki hafa séð nein sönnungargögn eða gögn yfir höfuð, sem renna stoðum undir þessa kenningu Trumps.

Soleimani var ráðinn af dögum í kjölfar nokkurra daga, harðra mótmæla við bandaríska sendiráðið í Bagdad. Í viðtalinu á Fox sagðist forsetinn telja að Soleimani hafi verið að skipuleggja árásir á það sendiráð og þrjú til viðbótar. Hafði hann þá þegar haldið þessu fram í Hvíta húsinu á fimmtuag og á baráttufundi með stuðningsfólki sínu í Ohio.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hélt þessu sama fram þegar hann kynnti til sögunnar nýjar viðskiptaþvinganir í garð Írana, í kjölfar hefndarárása þeirra á tvo flugvelli í Írak. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi