Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir sniðgöngu ekki viðeigandi

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Utanríkisráðherra segir að það hafi ekki verið viðeigandi að Píratar skyldu sniðganga hátíðarþingfundinn á Þingvöllum í dag, vegna ávarps forseta danska þingsins. Það hefði átt að mótmæla boði hennar fyrr, segir þingmaður Vinstri grænna.

Mikið hefur verið rætt um hlutverk Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, á hátíðarþingfundi Alþingis sem fór fram á Þingvöllum í dag. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gekk burt af þingpöllum þegar Kjærsgaard flutti ræðu sína og þingmenn Pírata sniðgengu fundinn. Þá mætti þingflokkur Pírata mætti ekki til hátíðarkvöldverðar á Hótel sögu í kvöld. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gangrýndi umræðu um þáttöku Kjærsgaard og sagði það yfirlæti og dónaskap að virða ekki embætti danska þingsins. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tekur í sama streng. 

„Ég tek bara undir með formanni Sjálfstæðisflokksins. Þetta er ekki viðeigandi. Við erum ekkert sammála öllum þeim sem hingað koma, höfum ekki verið og verðum aldrei. En við eigum að sýna þessu fólki virðingu. Ég tala nú ekki um þegar þau eru hér komin til að ávarpa Alþingi Íslendinga á þessari hátíðarstundu,‘‘ segir Guðlaugur. 

Segir pólitík Kjærsgaard ógeðfellda

Þingmaður Vinstri grænna telur að ákvörðuninni um að bjóða Kjærsgaard að taka þátt í hátíðahöldunum hefði mátt mótmæla fyrr. „Í fyrsta þá kannski er þetta sá stjórnmálamaður sem ég er hvað mest ósammála. Sú pólitík sem Pia hefur iðkað á sínum ferli, sérstaklega í innflytjenda- og útlendingamálum er afar ógeðfelld að mínu mati,‘‘ segir Rósa Björk. 

„En þessi ákvörðun var tekin um að við þetta tækifæri, þá yrði boðið forseta danska þingsins hingað til að taka þátt í þessum hátíðahöldum. Ef að það átti að mótmæla þeirri ákvörðun innan þingsins og á vettvangi þingsins þá hefði alveg verið hægt að gera það fyrr að mínu mati. Mér finnst þetta óheppilegt. Á þeim degi sem hátíðahöld eiga að snúast um fullveldi Íslendinga, þá sé það hún sem taki þá alla athyglina og hennar nærvera hér á þessum degi.‘‘

Umdeild vegna andstöðu við innflytjendur

Kjærsgaard er umdeild, einkum vegna andstöðu við innflytjendur. Hún og flokkur hennar hafa barist fyrir því að settar verði hömlur á fjölda innflytjenda í Danmörku. Árið 2010 lagði hún til að gervihnattaloftnet yrðu bönnuð í hverfum innflytjenda og lagði til bann við dreifingu á útsendingum arabískra sjónvarpsstöðva, svo sem al Jazeera og al Arabyia.

Þá vildi hún að reiknaður yrði út kostnaður við þá innflytjendur sem eru ekki af vestrænum uppruna. Raunar sagðist hún svo vilja banna fólki sem ekki er af vestrænum uppruna að setjast að í Danmörku. Kjærsgaard stofnaði Þjóðarflokkinn árið 1995 og veitti honum formennsku í næstum sautján ár, eða til ársins 2012. Hún hefur verið forseti danska þingsins frá 2015.