Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir skýringar Sáda ófullnægjandi

15.11.2018 - 13:19
Erlent · Asía · Khasoggi
epa07104103 Turkish Minister of Foreign Affairs Mevlut Cavusoglu speaks during a joint press conference with his Albanian counterpart Ditmir Bushati (not pictured) following their meeting in Tirana, Albania, 19 October 2018.  EPA-EFE/MALTON DIBRA
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Tyrklandi telja ófullnægjandi skýringar ríkissaksóknara Sádi-Arabíu á morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi. Þetta sagði Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, í dag og staðhæfði að Khashoggi hefði verið myrtur að yfirlögðu ráði.

Ráðherrann ítrekaði jafnframt kröfu tyrkneskra stjórnvalda að þeir sem handteknir hefðu verið í Sádi-Arabíu vegna málsins yrðu framseldir og sóttir til saka í Tyrklandi.

Ríkissaksóknari Sádi-Arabíu staðfesti í morgun að Khashoggi hefði verið myrtur í skrifstofu ræðismanns landsins í Istanbúl 2. október. Til átaka hefði komið, Khashoggi verið gefinn banvænn lyfjaskammtur, lík hans bútað sundur og fjarlægt. Fimm menn ættu yfir höfði sér dauðarefsingu fyrir aðild að morðinu.  

Talsmaður saksóknaraembættisins vísaði á bug ásökunum um að Mohammed bin Salman, krónprins í Sádi-Arabíu, hefði verið viðriðinn morðið á Khashoggi.