Segir skólann fá falleinkunn

01.12.2019 - 12:27
Mynd með færslu
Menntunarstig fólks á svæðinu hefur hækkað, sérstaklega kvenna, segir í greinargerðinni og er það meðal annars þakkað bættu aðgengi að námi, fjölbreyttum námsleiðum og sveigjanlegum kennsluháttum. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Skólanefndarmaður á Seltjarnesi segir Grunnskóla Seltjarnarness hafa fengið falleinkunn fyrir námsmat nemenda sem luku grunnskólagöngu í vor. Hann segir að vegna rangrar aðferðar við námsmat sé ekki hægt að treysta því að einkunnir séu réttar.

Bæjarstjórnarmeirihlutinn á Seltjarnarnesi bað tíundu bekkinga sem útskrifuðust í vor og foreldra þeirra afsökunar í vikunni og harmaði deilur um námsmat sem risu við útskrift. Utanaðkomandi skólastjóri var fenginn til að vinna greinargerð um gagnrýnina og benti á atriði sem mættu betur fara, við námsmat og upplýsingagjöf.

Björn Gunnlaugsson, fulltrúi Viðreisnar/Neslista í skólanefnd Seltjarnarness, segir skólann hafa fengið falleinkunn. „Ef ég er að taka stærðfræðipróf og nota ekki réttar aðferðir við að setja upp dæmi og fæ ekki út það svar sem ég á að fá þá fæ ég ekki rétt fyrir prófspurninguna. Ef ég nota vitlausa aðferð á öllum prófspurningunum eins og skólinn hefur gert hér, ekki bara við einn nemendur eða nokkra heldur allan árganginn, þá er ég bara fallinn á prófinu.

Björn segir að þetta valdi mikilli óvissu. „Af því að við sjáum að það hefur ekki verið notuð rétt aðferð við að gefa nemendum lokaeinkunn, og í einhverjum tilvikum var aðferðin víðsfjarri því sem átti að vera, þá er ekki hægt að fullyrða með neinni vissu um neitt þeirra barna sem útskrifuðust síðasta vor að þau hafi fengið rétta einkunn.“

Ekki náðist í Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra við vinnslu fréttarinnar. Í bókun meirihlutans á síðasta bæjarstjórnarfundi sagði að unnið væri með breytt verklag við námsmat í vetur, að unnið sé að gerð námsmatsstefnu fyrir skólans og að fræðslustjóri fylgist með framvindu vinnu við námsmat.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi