Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir skóla án aðgreiningar umdeilda hugmynd

14.02.2019 - 07:10
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, er hlynnt áformum meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur um að börn hælisleitenda sæki nám í Vogaskóla. Tillagan hefur hlotið þónokkra gagnrýni, meðal annars frá deildarstjóra við Vogaskóla, sem segir hugmyndina í algjörri andstöðu við íslenskt skólastarf, og jafnvel í andstöðu við lög.

Greint var frá tillögunni í fréttum sjónvarps í gærkvöldi. Tillagan byggir á niðurstöðum skýrslu um móttöku og aðlögn barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd sem birt var í september í fyrra. Þar er meðal annars lagt til að stofnuð verði stoðdeild við einn grunnskóla þar sem börnin fái sértækan stuðning. Lagt er til að börnin verði að hámarki níu mánuði í stoðdeildinni áður en þau hefja nám í heimaskóla. Nú er stefnt að því að opna þessa deild í Vogaskóla.

Kolbrún Baldursdóttir segist styðja tillöguna út frá faglegum sjónarmiðum, en hún var formaður Barnaheilla og veitti hælisleitendum sálfræðiþjónustu áður en hún tók sæti í borgarstjórn.

„Þetta er til þess milda þeirra fyrstu skref. Þarna er hlúð að þeim á eigin forsendum. Þetta er að sjálfsögðu bara tímabundið eins og ég skil þetta og sum munu sennilega fara hratt þarna í gegn en þau fara þá í almennan bekk á eigin forsendum þegar þau eru tilbúin,“ segir Kolbrún í samtali við fréttastofu.

„Ég veit að þetta er víða svona í öðrum löndum,“ segir hún enn fremur. „Ég hef sjálf reynslu af því að vera með barn í útlöndum þar sem það fór í aðlögun í nokkra mánuði og það tókst mjög vel.“

Tillagan gagnrýnd

Gagnrýni á tillöguna hefur snúist um réttindi barnanna sem um ræðir. Helga Helgadóttir, deildarstjóri sérkennslu í Vogaskóla, telur tillöguna vera í andstöðu við lög um grunnskóla. Þar kemur fram að koma eigi í veg fyrir mismunun vegna uppruna við nám og kennslu.

Í aðalnámskrá segir einnig að allir nemendur á grunnskólastigi eigi að rétt á að stunda skyldunám í almennum grunnskólum án aðgreiningar sem öll börn eiga rétt á að sækja. Frá 2016 til 2018 hófu 116 börn fólks í leit að alþjóðlegri vernd skólagöngu í 12 grunnskólum í Reykjavík. Í dag er 21 slíkt barn í skólunum.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að Vogaskóli þyki heppilegur fyrir deildina því þar sé reynsla fyrir hendi, og bæði fagfólk og húsnæði til staðar.

Ásthildur Linnet, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi, sagði í Kastljósi í gær að of langar vegalengdir milli skóla og heimilis væru íþyngjandi fyrir börn. Helgi benti þá á að Vogaskóli væri nokkuð miðsvæðis í Reykjavík og þess vegna hafi hann orðið fyrir valinu.

Hugmyndin er að koma börnunum fyrir í Vogaseli, sem er frístundaheimili við Vogaskóla, fyrir hádegi á meðan byggingin er ekki í notkun.

Mynd:  / 
Kastljós 13. febrúar um tillögu meirihlutans í borginni.

Sérþarfir barnsins ekki í forgrunni í skóla án aðgreiningar

Kolbrún segir í tölvupósti til fréttastofu að skóli án aðgreiningar sé umdeilt fyrirbæri. „[...]ég hef gagnrýnt það vegna þess að ekki er verið að setja sérstakar þarfir barnsins í  forgrunn, svipuð rök t.d. hvað varðar börn sem ekki finna sig meðal jafningja í almennum bekk og líður illa í bekknum en komast ekki t.d. í úrræði eins og Klettaskóla sem er löngu sprunginn. Til eru alls konar sérúrræði og já mér finnst skóli án aðgreiningar ekki hafa fengið nóg til að virka sem slíkur, þess vegna er komið alls konar „sér“.“

„Ekki horfa á þennan hóp sem einstakan hóp, þau eiga það sameiginlegt að allt hér er nýtt og ókunnugt,“ skrifar Kolbrún til fréttastofu. „Þarna gefst svigrúm til að kynnast þeim undir minna áreiti, hvert og eitt barn færi meiri tíma fagfólks og kennara. Svo ég styð þetta á faglegum grundvelli.“