Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir skilyrði fyrir blóðgjöf vera móðgun

23.01.2020 - 23:28
Mynd: RÚV / RÚV
Framkvæmdastjóri Samtakanna '78 segir það móðgun við samkynhneigða karla að stjórnvöld skuli setja þeim skilyrði um hversu virku kynlífi þeir megi lifa til þess að fá að gefa blóð eins og annað fólk. Heilbrigðisráðherra ætlar að ræða við framámenn samtakanna á næstunni.

Heilbrigðisráðherra Danmerkur ákvað í síðustu viku að að samkynhneigðir karlar megi eftirleiðis gefa blóð, hafi þeir ekki haft samræði við aðra karla í 4 mánuði. Reglugerðin tekur gildi í mars.  

Ráðgjafarnefnd um blóðgjöf skilaði Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra skýrslu fyrir ári þar sem mælst var til þess að reglur Blóðbankans hér á landi yrðu rýmkaðar. Samkynhneigðum körlum hefur alfarið verið meinað að gefa blóð í um það bil 30 ár. 

Framkvæmdastjóri Samtakanna '78 segir að síðan þá hafi samtökin fundað með heilbrigðisráðherra, ráðgjafarnefndinni og stjórnendum Blóðbankans. Málið gangi vissulega hægt.

„Ég held að það sé alveg skiljanlegt vegna þess að þetta er stórt mál þegar kemur að því í rauninni að segja við homma, eða karlmenn sem stunda mök með öðrum karlmönnum, að þið þurfið að vera skírlífir í x langan tíma til þess að fá að gefa blóð,“ segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78.

Í skýrslu ráðgjafarnefndarinnar er mælst til þess að samkynhneigðum hér á landi verði heimilað að gefa blóð hafi þeir ekki haft samræði við aðra karla í 12 mánuði, samanborið við fjóra í Danmörku.

„Þessi leið er móðgandi, hún er móðgandi vegna þess að þarna er verið að segja við ákveðinn hóp að við treystum ykkur ekki vegna kynhneigðar ykkar. Og það er móðgandi,“ segir Daníel.

Heilbrigðisráðuneytið segir í svari til fréttastofu að næsta skref sé að ráðuneytið óski eftir formlegri afstöðu Samtakanna '78 til málsins.

Framkvæmdastjóri samtakanna er tvístígandi, spurður um hvort hann sé bjartsýnn á að þessu banni verði aflétt á þessu ári.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV