Segir sjúklingalög brotin á hverjum degi

03.06.2019 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins sagði á síðasta þingfundi að ákvæði sjúklingalaga væri brotið á hverjum degi vegna biðlista í liðskiptaaðgerðir. Einungis væri tímaspursmál hvenær einhver þeirra þúsund sem bíða eftir aðgerð færi í mál við heilbrigðisráðherra.

Fyrir skömmu var lögð fram greinargerð á Alþingi um biðlista í heilbrigðiskerfinu en þar kom fram að um þúsund manns að meðaltali hafa beðið eftir liðskiptaaðgerðum.

Sjúkratryggingar Íslands sögðu upp samningi nýlega við einkastofur lækna sem framkvæmt hafa augasteinaaðgerðir, með mjög góðum árangri, sagði Þorsteinn í ræðu sinni. Með þessum samningi hefðu biðlistar eftir slíkum aðgerðum styst verulega.

„Það sem var sameiginlegt með öllum þeim fréttum var að það virtist koma öllum viðkomandi á óvart hvernig ástandið er. Þar kom heilbrigðisráðherra í opna skjöldu að það skyldu vera 1.000 manns á biðlista. Það er búið að vera viðvarandi í alla vega 24–30 mánuði. Það kom forstjóra Sjúkratrygginga mjög á óvart að það skyldi kosta peninga að senda fólk til útlanda í aðgerðir. Þetta bendir ekki til þess að menn séu í tengslum við það sem þeir eru að fást við,“ sagði þingmaðurinn.

Ákvæði sjúklingalaga brotin á hverjum degi

Hann vitnaði í 3. grein laga um réttindi sjúklinga þar sem segir að „sjúklingur á rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita. Sjúklingur á rétt á þjónustu sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á.“

Að mati Þorsteins er þetta ákvæði brotið dag hvern. Það hljóti að leiða til þess að einhver þeirra þúsund sem bíða eftir liðskiptaaðgerð fari í mál við heilbrigðisráðherra.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi