Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir sameiningu óumflýjanlega

26.09.2019 - 06:29
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Oddviti Tjörneshrepps telur að sveitarfélagið geti staðið á eigin fótum án þess að sameinast öðru sveitarfélagi. Það séu hlunnindi fólgin í því að búa í litlu samfélagi en örlög hreppsins séu ráðin, sameining sé óumflýjanleg.

Afar skiptar skoðanir eru meðal forystumanna sveitarfélaga á landinu um hugmyndir um að færa lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum upp í 1000. Samkvæmt samþykkt á lágmarksíbúafjöldi að vera 250 frá sveitastjórnarkosningum árið 2022 en 1000 frá sveitastjórnarkosningum 2026. Markmiðið er að tryggja betur getu sveitarfélaga til að annast lögbundin verkefni.

Sögðu sig úr sambandinu

Meðal sveitarfélaga sem eru ósátt við tillöguna er Tjörneshreppur sem sagði sig úr Sambandi íslenskra sveitarfélaga  og Eyþingi í kjölfar samþykktarinnar.

„Ég er orðinn sannfærður og hreppsnefndin sömuleiðis um að Tjörneshreppur mun þurfa að sameinast fyrir lok þessa kjörtímabils. Fram að því höfðum við talið að það væri nú ekkert endilega víst en það er algjörlega ljóst núna,“ segir Aðalsteinn Jóhann Halldórsson, oddviti Tjörneshrepps.

Nokkur sveitarfélög á landinu hafa einnig lýst sig andsnúin tillögunni, eins og Grímsnes- og Grafningshreppur, Hörgársveit, Svalbarðshreppur, Skagabyggð, Vopnafjarðarhreppur, Grýtubakkahreppur og fleiri. Önnur telja að ganga þurfi enn lengra í sameiningarmálum, þar á meðal Hrunamannahreppur.

Engin í leikskólanum og tvö börn á grunnskólaaldri

Tjörneshreppur er með fámennustu sveitarfélögum landsins. Íbúar voru 55 um síðustu áramót. Ekkert leikskólabarn býr í sveitarfélaginu og tvö börn eru á grunnskólaaldri. Þau sækja skóla í næsta sveitarfélag, Norðurþing. Aðalsteinn segir að sveitarfélagið standi vel að vígi og veiti íbúum þá grunnþjónustu sem því ber skylda til. 

„Við höfum gengið hingað til og alveg með ljómandi fínan afgang á hverju einasta ári tekjulega séð. Það eru einfaldlega okkar útsvarstekjur sem dekka það. Við erum ekki í gæluverkefnum mikið sem eru oft í stærri sveitarfélögunum, sem hafa oft og tíðum reynst þeim afskaplega dýrkeypt. Hvort sem það er í atvinnuuppbyggingu eða hreinlega einhverja afþreyingu. Við höfum ekki verið í slíku og kunnum að lifa á litlu,“ segir Aðalsteinn.