Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segir reglur um gæludýr öryrkja ekki nýjar

05.05.2015 - 14:18
Mynd með færslu
 Mynd: Kd rome - Wikimedia Commons
Gæludýraeigendur í íbúðum hússjóðs Öryrkjabandalagsins þurfa að losa sig við dýrin sín fyrir 15. maí ef þeir vilja halda íbúðunum. Formaður Dýraverndarsambands Íslands segir skipunina mannfjandsamlega og vega að þeim sem minnst mega sín.

Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins, sendi bréf til leigjenda sinna 12. mars þar sem segir að vegna fjölda kvartana sé áréttað að allt dýrahald sé bannað í íbúðunum. Hafi leigjendur, sem halda dýr, ekki fundið þeim nýjan samastað fyrir 15. maí, verði húsaleigusamningi rift.

Björn Arnar Magnússon, framkvæmdastjóri Brynju, segir að reglurnar hafi verið í gildi til fjölda ára.

„Sumt fólk hefur ofnæmi fyrir köttum og hundum og síðan er auðvitað óþrifnaður og annað af dýrahaldi - þó að það sé ekki hjá öllum, þá koma alltaf upp tilfelli," segir hann. „Og sumir eru auðvitað hræddir við dýr, til dæmis hunda. Það hefur leitt til þess að fólk er ekki að fara út úr íbúðunum sínum vegna þess að það er kannski hundur í næstu eða þarnæstu íbúð."

Stjórn Dýraverndarsambands Íslands hefur sent Brynju og stjórn Öryrkjabandalagsins bréf vegna málsins.

Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambandsins, segir stöðuna grafalvarlega.

„Við sjáum þetta sem mannfjandsamlega aðgerð. Í ljósi þess að fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á aukin lífsgæði fólks sem heldur gæludýr," segir hún. 

„Við höfum áhyggjur af þessar þróun, að svona stórir leigusalar gangi framar en lögin í sínum reglum, og hafi þarna þetta djúpa inngrip í einkalíf fólks. Fólk á rétt á að haga lífi sínu, lögum samkvæmt, inni í sínum íbúðum." 

Hússjóður Öryrkjabandalagsins er með þrjú hús við Hátún og tvö við Sléttuveg. Hallgerður segir að hægt væri að leyfa dýr í ákveðnum húsum.

„Þarna er um að ræða fólk sem kannski á ekki mikið heimangengt, getur verið með félagsfælni og er að reyna að koma jafnvægi á líf sitt með því að halda gæludýr sem það hefur mikla elsku á," segir hún. „Þannig að mér finnst í þessu tilfelli vegið að þeim sem síst skyldi." 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV