Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir pólskum starfsmönnum G&M hótað

Mynd með færslu
Library picture. Not directly connected to this story. Mynd: Gunnlaugur Starri - RÚV
Formaður Framsýnar stéttarfélags, segir að pólskum starfsmönnum verktakans G&M hafi verið hótað því að launaleiðrétting sem þeir fengu hér, verði tekin af þeim heima í Póllandi. Enn á eftir að leysa úr launamálum starfsmanna verktakans við byggingaframkvæmdir í Reykjavík.

Síðustu starfsmenn G&M sem störfuðu við Þeistareykjavirkjun flugu heim til Póllands á föstudag. Það voru sex manns en að sögn yfirmanns hjá LNS Sögu á Þeistareykjum var verkefnum G&M við virkjunina lokið. Allt að 60 manns störfuðu á vegum G&M við Þeistareyki.

LNS Saga tryggi að starfsmennirnir fá vangoldin laun

Eins og við sögðum frá á föstudag greiddi LNS Saga tæpar 15 milljónir króna, beint inn á reikninga þessarra starfsmanna, en það voru vangoldin laun. Ásgeir Loftsson, framkvæmdastjóri LNS Sögu sagði í fréttum RÚV á laugardag að fyrirtækið myndi tryggja að starfsmenn G&M við byggingu sjúkrahótels í Reykjavík fengju laun sín greidd. Fyrirtækið væri að vinna í því að októberlaunin skiluðu sér.

Fundur á morgun til að ræða launagreiðslur G&M 

Sigurður Bessason, formaður Eflingar stéttarfélags, segir að á morgun sé fyrirhugaður fundur til þess að fara ofan í gögn varðandi launagreiðslur G&M til starfsmanna við byggingaframkvæmdir í Reykjavík. Það muni taka töluverðan tíma að komast til botns í því. Sigurður taldi að hluti þessarra verkamanna væri enn á landinu. Þeir hafi ætlað að vera í sambandi við Eflingu á fimmtudag en hann hafi ekki heyrt frá heim ennþá.

Hafi hótað að ná leiðréttingunni aftur af mönnunum

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, segir að þeir Pólverjar sem fóru frá Þeistareykjum á föstudag hafi sagt að G&M í Póllandi hafi hótað því að ná af þeim þeirri launaleiðréttingu sem þeir fengu hér. „Þessir menn eru náttúrulega í ráðningasambandi við þetta fyrirtæki. Vissulega eiga þeir inni orlofsgreiðslur og annað. Eftir því sem þessir starfsmenn segja, og ég trúi þeim fullkomlega, þá verði þessum launum haldið eftir og málið gert upp. Þannig að þarna er verið að koma verulega í bakið á okkur,“ segir Aðalsteinn.