Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir Pence „illgjörðamann“ hinsegin fólks

12.08.2019 - 14:50
Mynd: Samtökin 78 / Samtökin 78
Samtökin '78 mótmæla harðlega mögulegri heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands. Formaður samtakanna segir að Pence hafi allan stjórnmálaferil sinn barist af fullum krafti gegn réttindum hinsegin fólks.

„Pence kom inn í fulltrúaþing Bandaríkjanna 2001 og varð ríkisstjóri Indiana frá 2013-2016. Allan þann tíma hefur hann unnið gegn hinsegin réttindum beint og óbeint,“ sagði Þorbjörg Þorvaldsdóttir formaður samtakanna í Morgunútvarpinu á Rás 2. Til að mynda fái hann 0 í einkunn frá samtökunum Human Rights Campaign fyrir það hvernig hann greiddi atkvæði sem þingmaður í málefnum hinsegin fólks. „Hann er svo sannarlega enginn bandamaður og hreinlega illgjörðamaður.“ Þorbjörg segir Pence til að mynda hafa barist hart gegn samkynja hjónaböndum og hann sé heilinn á bak við þá stefnu að víkja trans fólki úr bandaríska hernum. „Sem ritstjóri birti hann hómófóbískar greinar, hann var í stjórn samtaka sem berjast gegn réttindum hinsegin fólks. Þannig að hann á sér langa og ljóta sögu í þessum málaflokki.“

Að sögn Þorbjargar gengur Pence enn lengra í andstöðu við hinsegin fólk en hinn almenni Repúblikani. Til að mynda hafi lög sem hann undirritaði sem ríkisstjóri Indiana 2015 um að fólki sé frjálst að mismuna samkynhneigðum á grundvelli trúarskoðana mætt töluverðri andstöðu innan Repúblikanaflokksins. „Þannig að hann er maður öfgaskoðana.“ Þorbjörg nefnir líka að ríkisstjórn Trumps hafi margt á samviskunni þegar réttindi hinsegin fólks eru annars vegar. „Bara frá því í maí hefur verið tilkynnt að taka eigi alla heilbrigðisþjónustu fyrir trans fólk út úr Affordable Care Act. Þar er ein og hálf milljón trans fólks sem missir aðgang að heilbrigðisþjónustu.“

Þorbjörg segir líka að hætt sé að safna gögnum um hinsegin fólk í spurningakönnunum á vegum ríkisins, og látið eins og það sé ekki til. „Nokkrum mínútum eftir að Trump og Pence tóku við var búið að fjarlægja allt sem sneri að hinsegin fólk af vefsíðu Hvíta hússins, innanríkisráðuneytisins og vinnumálaráðuneytisins, sem var eitthvað sem kom inn í tíð Obama.“ Í einhverjum tilvikum hafi þó tekist að koma í veg fyrir réttindaskerðingu. Pence hafi til dæmis þurft að draga til baka áðurnefnda löggjöf sem leyfði að mismuna hinsegin fólki vegna trúarskoðana, vegna þrýstings frá mannréttindasamtökum, stórfyrirtækjum og hans eigin flokksmönnum. 

„Það er ákveðið bakslag að verða á heimsvísu, þess vegna er svo mikilvægt að Samtökin '78 berjist fyrir réttindum hinsegin fólks í löndunum í kringum okkur, og þá sérstaklega vinaþjóð eins og Bandaríkjunum,“ segir Þorgbjörg sem er mjög óánægð með mögulega heimsókn Pence þrátt fyrir að einhverjir viðskiptahagsmunir kunni að vera undir. „Við kaupum ekkert mannréttindi. Ætlum við að setja verðmiða á þau?“ Þorbjörg sagði að ef af heimsókninni verði taki samtökin því ekki þegjandi og hljóðalaust. „Með nákvæmlega hvaða hætti er ekki ákveðið. En við munum mótmæla og láta í okkur heyra.“

Rætt var við Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, formann Samtakanna '78, í Morgunútvarpinu á Rás 2.