Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segir óvissu um forsetaembætti meiri en áður

05.04.2016 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Atburðarás dagsins kom Björgu Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti öll á óvart. Í fyrsta skipti í sögunni hafi forseti Íslands hafnað beiðni um þingrof og hafi sjálfur mat um það hvenær það eigi við að hann fallist á slíka beiðni. Það hafi ævinlega verið metið svo að það sé á forræði forsætisráðherra að kalla eftir þingrofi. Margt hafi breyst og eftir 1991 geti forsætisráðherra ekki lengur leyst upp þingið með þingrofi.

Þingið sitji áfram og þingrof sé í dag raunverulega ekki annað en ákvörðun um að boða til kosninga. 
Í fyrstu grein stjórnarskrárinnar segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stórn. Björg segir að þingræðisreglan sé vandmeðfarin.

Forseti hefur oft áður  gengið fram hjá þingræðisreglunni og vísað til vilja þjóðar. Þannig að við sjáum hversu tilviksbundið þetta er. Ef það er sterk krafa þjóðarinnar um þingrof en hugsanlega ekki meirihluti á þingi, þá er alveg óútreiknanlegt,miðað við hversu matskennt þetta er í hendi forseta, hvort hann yrði við tillögu um þingrof eða ekki. Þannig að við sjáum enn einu sinni að þessi óvissa er kannski enn meiri í dag en áður. Hún verður áfram til staðar þegar forsetaembættið er jafn óljóst skilgreint í stjórnarskránni og eins og raun ber vitni.