Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir óskiljanlegt að kaupin komi á óvart

27.07.2015 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: Eyjan - Stöð 2
Kaupin á útgáfufélaginu Fótspor eru fjármögnuð með seljandaláni og úr „okkar eigin rekstri,“ segir Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Vefpressunnar. Hann segir kaupin á útgáfunni ekki hafa átt að koma neinum á óvart - fyrrverandi eigandi hafi lýst því yfir að hún hafi verið til sölu í tvö ár.

Björn Ingi hefur ekki viljað veita viðtal vegna kaupanna á útgáfufélaginu Fótspori en hefur svarað tveimur skriflegum fyrirspurnum fréttastofu. Fótspor gaf út 11 staðarblöð, meðal annars Reykjavík vikurblað og Akureyri vikublað.

Björn Ingi segir í svari til RÚV að kaupin séu „alfarið fjármögnuð úr okkar eigin rekstri og með seljendaláni.“

Útgefandinn segir óskiljanlegt að þessar fréttir hafi komið einhverjum ritstjórum í opna skjöldu „Ég hefði haldið að umræddir blaðamenn hefðu frekar átt að fagna því að þau komi áfram út, en að reka upp reiðiöskur yfir því að Vefpressan sjái þarna tækifæri til vaxtar.“

Hann segist eiga eftir að fara yfir starfsmannamálin. „Einhverjir hafa þó sýnilega lýst því yfir að þeir vilji ekki vinna fyrir okkur og það er þeirra réttur sem ber að virða. Við tökum ekki við rekstrinum fyrr en að fengnu grænu ljósi frá Samkeppniseftirlitinu og Fjölmiðlanefnd og fyrr getum við ekki rætt við starfsmenn eða lagt línur.“

Hann bætir við að blöðin muni öll koma áfram út og einhverjar áherslubreytingar verði sjálfsagt - of snemmt sé að segja eitthvað til um það nú.

Kaup Björns Inga á Fótspori hafa vakið nokkra athygli en umsvif hans hafa aukist mikið síðan hann sagði skilið við pólitík sem borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Björn Þorláksson, fyrrverandi ritstjóri Akureyri vikublaðs, sagði í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun að það væri ekki „séns í helvíti“ að hann ynni fyrir Björn Inga. 

Ingimar Karl Helgason, ritstjóri Reykjavík vikublaðs, sagði kaupin hafa komið sér á óvart. Hann sagði í samtali við Kjarnann að hann vissi ekki hvað tæki við hjá sér.

Kristinn H. Gunnarsson, ritstjóri Vestfjarða, segir í samtali við bb.is í dag að blaðið komi ekki út í ágúst. Hann telur þó fullvíst að það verði gefið út áfram þó hann viti ekkert um það.