Segir orð Ragnars Þórs byggð á misskilningi

18.02.2019 - 22:37
María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins. - Mynd:  / 
Málflutningur formanns VR er ómakleg árás og að miklu leyti byggður á misskilningi. Þetta segir María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins. 

Í fréttum RÚV í kvöld kom fram að stjórn VR hafi gefið Kviku banka fjóra daga til þess að koma í veg fyrir leiguhækkanir Almenna leigufélagsins. Annars ætli VR að taka allt sitt fé, ríflega fjóra milljarða, úr eignastýringu hjá Kviku. VR vísaði í upplýsingar frá félagsmönnum sem segjast hafa fengið einungis nokkra daga til þess að samþykkja tugþúsunda hækkun á leiguverði eða samningi verði sagt upp. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, líkti framkomu félagsins við ofbeldi. 

María Björk segir málflutning Ragnars Þórs að miklu leyti byggðan á misskilningi. „Og það er rétt að árétta það í upphafi að Kvika banki kemur ekki að rekstri Almenna leigufélagsins á neinn hátt. Hvað varðar leiguverðshækkanir, þá eru þessi tilfelli sem Ragnar Þór er að vísa í, þetta eru jaðartilfelli.“
Verið sé að hækka leigu á samningum sem voru langt undir markaðsverði. Þær eignir séu hluti af eignasafni sem félagið keypti 2017 og unnið hafi verið að því að hækka þá samninga í skrefum. „Ég er viss um að Ragnar Þór, sem hefur mikla reynslu af verslunarstörfum, skilji vel að það er ekki hægt að selja vöru með tapi það er ekki sjálfbært til langs tíma,“ segir María.  

Mannleg mistök sem verði leiðrétt

Hún segir það hafa komið sér í opna skjöldu að lesa um tilfelli þar sem fólk fékk fjögurra daga fyrirvara á því að samþykkja hækkun á leigu. „Og þegar ég grennslaðist nánar fyrir um það þá kom í ljós að þarna var um einfaldlega mannleg mistök að ræða. Það hefur nú þegar verið haft samband við allavega einhverja viðskiptavini og þetta leiðrétt.“ Sá frestur hafi því enga þýðingu, fólk hafi í raun mun lengri tíma til þess að hugsa málið.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir í skriflegu svari til fréttastofu að Samkeppniseftirlitið hafi ekki samþykkt kaup Kviku á Gamma. Kviku sé því óheimilt að koma að rekstri og stjórnun félagsins.