Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir óraunhæft að bærinn reki Akureyrarflugvöll

09.12.2019 - 11:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Akureyrarbær þyrfti að fá Akureyrarflugvöll án endurgjalds og 770-900 milljónir króna frá ríkinu árlega, ef bærinn myndi taka við rekstri vallarins. Þetta kemur fram í skýrslu sem bærinn lét gera til að kanna fýsileika þess að taka að sér rekstur flugvallarins.

Viðhalds- og endurnýjunarþörf sé um tveir milljarðar

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar gerði skýrsluna fyrir Akureyrarbæ. Völlurinn er í eigu ríkisins og á rekstrarlegri ábyrgð ISAVIA. Í niðurstöðum skýrslunnar segir að uppsöfnuð viðhalds- og endurnýjunarþörf sé um tveir milljarðar króna. Þá segir einnig að flugstöð og flughlað á vellinum séu algerlega óviðunandi. 

Ekki raunhæft að bærinn reki flugvöll

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir ekki raunhæft að bærinn taki yfir rekstur flugvallarins. Skýrslan verði hins vegar nýtt sem tól í baráttunni fyrir auknu fjármagni í uppbyggingu flugvallarins. 

„Við munum að sjálfsögðu nýta hana í þeim tilgangi að fá stjórnvöld að borðinu og fara í uppbyggingu sem skiptir máli hér fyrir Akureyrarflugvöll og landsbyggðina alla. - Er það samtali í gangi? - Já það er sjálfsögðu í gangi og er búið að vera lengi og við munum nýta þessa skýrslu enn frekar í því samtali."