Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir ómannúðlegt að afnema jólauppbót

17.12.2017 - 19:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk segir óskiljanlegt og ómannúðlegt að taka jólauppbót fyrir mat af hælisleitendum. Þetta sé lág fjárhæð fyrir ríki og sveitarfélög, en skipti sköpum fyrir þennan hóp.

 

Fullorðnir hælisleitendur fá átta þúsund krónur í fæðispeninga á viku og börn fimm þúsund. Tíðkast hefur að tvöfalda upphæðina í jólavikunni, en með reglugerðarbreytingu hefur það verið afnumið. Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær og Reykjanesbær hafa fengið tilkynningu frá Útlendingastofnun um að greiða ekki þessa uppbót og sagði sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjanesbæjar í hádegisfréttum að það þýddi að sveitarfélögin greiddu hana ekki. Sema Erlad Serdar formaður Solaris, samtaka sem vinna að bættum hag hælisleitenda og flóttafólks undrast þessa breytingu.

„Þessi ákvörðun er náttúrlega alveg fráleit. Ég hef ekki séð nein haldbær rök fyrir því hvers vegna þetta er gert og ég get hreinlega ekki ímyndað mér hvaða rök það ættu að vera sem að réttlæta svona aðgerðir. Þarna er náttúrulega verið að taka einn hóp sérstaklega fyrir sem er óskiljanlegt og ómannúðlegt. Þetta eru auðvitað ekki fjárhæðir sem að skipta ríki eða sveitarfélögin miklu máli, en þetta getur auðvitað skipt sköpum fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem að eru með hreinlega ekki neitt á milli handanna.“

Sema segist hafa fengið fyrirspurnir frá fólki, eftir að þetta spurðist út, um hvernig hægt væri að hjálpa.

„Og við munum auðvitað bregðast við því strax í dag og gera allt sem við getum til að aðstoða þá sem þurfa á því að halda.“

Hún segir að kallað verði eftir skýringum á þessum breytingum.

„Við munum allavega biðja um frekari svör við því hvers vegna þetta er gert og hvernig þetta er réttlætt,“ segir Sema Erla Serdar.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV